Fara yfir á efnisvæði

Leikföng

Um leikföng gildir reglugerð nr. 944/2014 um öryggi leikfanga og markaðssetningu þeirra á Evrópu. Þar koma fram þær reglur sem gilda um öryggi leikfanga. Nánari kröfur eru settar fram í íslenskum stöðlum sem innleiða samhæfða evrópska staðla um leikföng, ÍST EN 71 – öryggi leikfanga. Þar eru gerðar ítarlegar kröfur um hönnun, smáhluti, efnafræðilega eiginleika, brunaeiginleika, rafeiginleika og merkingar leikfanga. Við mat á öryggi leikfanga samkvæmt stöðlunum er miðað við hvaða hætta getur stafað af leikföngum sem notuð eru eins og til er ætlast eða fyrirsjáanlegt er miðað við eðlilega hegðun og aldur barns.

Reglugerðin gildir um leikföng sem greinilega eru hönnuð sem leikföng handa börnum yngri en fjórtán ára. Hún gildir einnig um vörur sem hafa þess konar lögun, lykt, lit, útlit, umbúðir, merkingar, rúmmál eða stærð að þótt þær séu ekki matvæli er hætta á að neytendur, einkum börn, rugli þeim saman við matvæli og stingi þeim upp í sig, sjúgi þær eða gleypi. Í viðauka við reglugerðina eru taldar upp vörur sem ekki falla undir leikfangahugtakið. Þar á meðal eru jólaskreytingar, íþróttabúnaður, brúður í þjóðbúningum, brúður til skrauts, áþekkir hlutir handa fullorðnum söfnurum og skartgripir fyrir börn svo að nokkuð sé nefnt.

Markaðssetning leikfanga
Leikföng sem markaðssetja á hér á landi eiga að vera merkt. Ekki er heimilt að setja leikföng á markað nema þau séu annaðhvort hönnuð og framleidd í samræmi við íslenska staðla sem innleiða samhæfða evrópska staðla eða hönnuð og framleidd í samræmi við eintak sem hefur hlotið gerðarviðurkenningu tilnefnds aðila innan Evrópska efnahagssvæðisins. Framleiðandi skal lýsa yfir að leikfang uppfylli allar kröfur reglugerðarinnar með samræmisyfirlýsingu.

Merkingar leikfanga
Leikföng sem markaðssetja á hér á landi eiga að vera CE-merkt. Á leikfanginu eða í notkunarleiðbeiningum sem því fylgir skal varað við þeirri hættu sem fylgir tilteknum leikföngum, ásamt upplýsingum um hvernig skuli brugðist við þeirri hættu. Á leikfanginu skal einnig vera nafn framleiðandans og merki ásamt heimilisfangi eða nafn og merki ábyrgðaraðila með heimilisfangi. Þessar upplýsingar skulu settar á leikfangið eða umbúðirnar og vera skýrar, læsilegar og óafmáanlegar. Þegar leikföng eru smágerð eða sett saman úr litlum hlutum er heimilt að setja þessar upplýsingar á merkimiða eða í notkunarleiðbeiningar.

Leikföng sem kunna að vera hættuleg börnum yngri en þriggja ára (36 mánaða) skulu vera með viðvörun þar að lútandi ásamt ábendingu um hættuna sem viðvörunin lýtur sérstaklega að og upplýsingum um hvernig skuli brugðist við þeirri hættu. Þetta ákvæði gildir ekki um leikföng sem vegna notagildis, stærðar, sérkenna, eiginleika eða af öðrum augljósum ástæðum eru ekki ætluð börnum yngri en þriggja ára. Merkingin skal vera myndræn (sjá mynd hér að neðan) eða í textaformi t.d.: Viðvörun! Hæfir ekki börnum yngri en 3ja ára! Aldursviðvörunarmerking skal vera á leikfanginu sjálfu eða á umbúðum leikfangsins. 


Á leikfanginu eða notkunarleiðbeiningum sem því fylgir skal varað við hættu sem fylgir tilteknum leikföngum. Allar varúðarmerkingar skulu vera á íslensku.

Eftirfarandi reglur gilda um viðvaranir og varúðarmerkingar á eftirtöldum leikföngum:

1. Leikföng sem kunna að vera hættuleg börnum yngri en þriggja ára skulu vera með viðvörun þar að lútandi ásamt ábendingu um hættuna sem viðvörunin lýtur sérstaklega að. Þetta gildir ekki um leikföng sem vegna notagildis, stærðar, sérkenna, eiginleika eða af öðrum augljósum ástæðum eru ekki ætluð börnum yngri en þriggja ára.

2. Rennibrautum, rólum, hringjum, fimleikarólum, reipum og áþekkum leikföngum sem eru fest á þverslár skulu fylgja notkunarleiðbeiningar um hvernig eigi að setja þau saman og upplýsingar um hvaða hlutar geti verið hættulegir sé leikfangið ekki sett saman á réttan hátt. Ennfremur skulu fylgja upplýsingar um nauðsynlegt eftirlit og viðhald á mikilvægasta uppsetningarbúnaði og um hættu á falli eða veltu ef eftirliti eða viðhaldi er ekki framfylgt.

3. Umbúðir nytjaleikfanga skal merkja með varnaðarorðum um að þau skuli nota undir eftirliti fullorðinna. Ennfremur skulu fylgja þeim varúðarreglur sem notandi á að fara eftir og aðvörun um áhættuna sem notandi tekur geri hann það ekki. Ennfremur skal benda á að leikfangið skuli geymt þar sem börn yngri en þriggja ára nái ekki til þess.

4. Leikföngum sem innihalda hættuleg efni og efnafræðileikföngum skulu fylgja upplýsingar um varúðarreglur, ábending um sérstaka hættu og ábending um skyndihjálp ef slys verður, ásamt merkingum í samræmi við ákvæði í reglugerð um flokkun, merkingu og meðferð eiturefna og hættulegra efna. Enn fremur skal benda á að leikfangið eigi að geyma þar sem börn yngri en þriggja ára nái ekki til þess. Á umbúðum utan um efnafræðileikföng skal ennfremur standa viðvörun um að leikfangið sé eingöngu ætlað börnum í aldursflokki sem nánar verður kveðið á um í viðkomandi stöðlum og það skuli notað undir eftirliti fullorðinna.

5. Hjólabretti og rúlluskauta fyrir börn skal merkja með viðvörun um að nota hlífðarbúnað. Í notkunarleiðbeiningum skal minna á að nota leikfangið með varúð og veita ábendingar um hlífðarbúnað sem mælt er með.

6. Leikföng til nota í vatni skal merkja í samræmi við samræmda evrópska staðla og sett viðvörun um að þau megi eingöngu nota undir eftirliti og í vatni þar sem barnið nær til botns.

 

Leikfangastaðallinn ÍST EN 71 hluti 1-11
Um leikföng gildir reglugerð nr. 408/1994 um öryggi leikfanga og hættulegar eftirlíkingar. Þar koma fram þær reglur sem gilda um öryggi leikfanga. Nánari kröfur eru settar fram í íslenskum stöðlum sem innleiða samhæfða evrópska staðla um leikföng, ÍST EN 71 – öryggi leikfanga. Þar eru gerðar ítarlegar kröfur um hönnun, smáhluti, efnafræðilega eiginleika, brunaeiginleika, rafeiginleika og merkingar leikfanga.

Við mat á öryggi leikfanga samkvæmt stöðlunum er miðað við hvaða hætta getur stafað af leikföngum sem notuð eru eins og til er ætlast eða fyrirsjáanlegt er miðað við eðlilega hegðun og aldur barns.

Listi yfir gildandi leikfangastaðla:

ÍST EN 71-1:2005+A14:2011 Öryggi leikfanga – 1. hluti: Kraftrænir og efnislegir eiginleikar.
Leiðréttingar AC/2006. 

ÍST EN 71-2:2006+A1:2007 Öryggi leikfanga – 2. hluti: Eldfimi.
Leiðréttingar AC/2006.
 
ÍST EN 71-3:1994 Öryggi leikfanga – 3. hluti: Far tiltekinna frumefna.
Viðbætur 71-3:1994/A1:2000, 71-3:1994/A1:2000/AC:2000, 71-3:1994/AC:2002

ÍST EN 71-4:2009 Öryggi leikfanga – 4. hluti: Samstæður fyrir efnafræðitilraunir og ámóta tilraunir.
 
ÍST EN 71-5:1993 Öryggi leikfanga – 5. hluti: Efnafræðileikföng (samstæður) önnur en tilraunasamstæður.
Viðbætur 71-5:1993/A1:2006, 71-5:1993/A2:2009.

ÍST EN 71-6:1994 Öryggi leikfanga – 6. hluti: Myndrænt tákn fyrir viðvörunarmerkingar um hæfilegan aldur notenda.

ÍST EN 71-7:2002 Öryggi leikfanga – 7. hluti: Fingramálning – Kröfur og prófunaraðferðir.

ÍST EN 71-8:2003+A4:2009 Öryggi leikfanga – 8. hluti: Rólur, rennibrautir og ámóta leiktæki til heimilisnotkunar innan- og utanhúss.

ÍST EN 71-9:2005/AC:2007 Öryggi leikfanga – 9. hluti: Lífræn efnasambönd – Kröfur.
Viðbætur 71-9:2005+A1:2007

ÍST EN 71-10:2005 Öryggi leikfanga – 10. hluti: Lífræn efnasambönd – Undirbúningur sýna og sýnataka.

ÍST EN 71-11:2005 Öryggi leikfanga – 11. hluti: Lífræn efnasambönd – Greiningaraðferðir.

Staðlarnir eru fáanlegir hjá Staðlaráði Íslands.


 

TIL BAKA