Fara yfir á efnisvæði

Vörur merktar íslenska fánanum

Margir sem framleiða íslenska vöru vilja merkja hana með íslenska þjóðfánanum til þess að vekja athygli á því hvaðan varan er. Lengi vel var þessi notkun á fánanum bönnuð en nú er þetta heimilt að uppfylltu skilyrði um að varan sé íslensk.

Vara telst til dæmis íslensk ef hún er framleidd hér á landi úr innlendu hráefni eða ef hráefni er aðflutt en nægileg aðvinnsla hefur átt sér stað hér á landi. Á þessu er þó sú undantekning að ef aðflutta hráefnið er líkt búvöru t.d. kjöti, ull, fiski eða grænmeti sem ræktað er hér á landi má aldrei nota fánann.

Íslenskir hönnuðir mega setja fánann á hönnunarvöru sína jafnvel þó hún sé framleidd erlendis ef hún er seld undir íslensku vörumerki. Í þessum tilvikum þarf að tilgreina hvar varan var framleidd.

Neytendur eiga samkvæmt þessu að geta treyst því að vara sem ber íslenska fánann sé íslensk. Neytendastofa sinnir eftirliti með notkun á íslenska fánanum í markaðssetningu og veitir leyfi fyrir notkun hans í skráð vörumerki.

TIL BAKA