Fara yfir á efnisvæði

Viðvörun vegna hengingarhættu í barnagæslutæki

13.01.2014

Fréttamynd

Neytendastofa vekur athygli á tilkynningu á heimasíðu VL heildverslunar ehf. vegna hengingarhættu sem skapast getur vegna snúru á tækinu  Angelcare sem nemur hljóð og hreyfingar í rúmi hjá ungbörnum.

Skynjaraplata sem sett er undir dýnu í barnarúm er tengd við Angelcare móðurstöð með snúru.  Ef ekki er gengið frá snúru líkt og leiðbeiningar segja til um er hætta á að börn getir náð til hennar og snúran vafist um háls þeirra. Í Bandaríkjunum hafa tvö börn látist vegna þessa og tvö önnur börn verið hætt komin.

Til að draga úr þessari hættu lét framleiðandi Angelcare tækjanna útbúa öryggishlíf sem sett er yfir snúruna milli  skynjaraplötu og móðurstöð. Einnig er mikilvægt að gæta að því að a.m.k. 1 metri sé á milli barnarúms og vakttækis. Raftæki á Íslandi eiga ávallt að hafa 220 volta spennu sem neytendum er bent á að athuga hafi þeir keypt tæki í útlöndum.

Neytendastofa vill benda neytendum á að hafa samband við söluaðila keyptra tækja til að nálgast öryggishlíf yfir snúruna. Ef þeir eru ekki vissir um hvernig á að festa snúruna er mikilvægt að þeir  fjarlægi tækið þar til upplýsinga hefur verið aflað.

Þá vill Neytendastofa ítreka við neytendur að fara alltaf eftir leiðbeiningum.

Sjá nánar hér: vlh.is/skrar/file/angelcare-kit-fyrir-taeki-med-skynjaraplotu/ac-snuruhaetta.pdf

TIL BAKA