Fara yfir á efnisvæði

Bensínstöðvar höfuðborgarsvæðisins kannaðar

16.05.2014

Fréttamynd

Neytendastofa kannaði verðmerkingar hjá 72 bensínstöðvum á höfuðborgarsvæðinu núna í maí sl. Athugað var hvort verðmerkingar á vörum inni í verslun og á bensíndælu væru í samræmi við lög og reglur. Einnig voru tíu vörur teknar af handahófi og samræmið athugað á milli hillu- og kassaverðs.

Allar bensínstöðvar voru með verðmerkingar á eldsneyti samkvæmt reglugerð en hjá tíu bensínstöðvum var verðmerkingum á vörum inni í verslun ábótavant en þetta voru fyrirtækin N1 Stóragerði, N1 Bíldshöfða, N1 Kringlumýrabraut, N1 Háholti, N1 Hringbraut, Olís Skúlagötu, Olís Norðlingabraut, Orkan Hraunbæ, Skeljungur Laugaveg og Skeljungur Garðabæ. Mikið var um óverðmerktar vörur en einnig fannst ósamræmi á milli hillu- og kassaverðs. Þetta er því mikil afturför frá síðustu könnun sem gerð var í ágúst 2010 þar sem aðeins fjögur fyrirtæki fengu áminningu frá stofnuninni.

Þessari könnun verður fylgt eftir og ef þurfa þykir teknar ákvarðanir um hugsanleg viðurlög ef ekki hefur verið farið að fyrirmælum stofnunarinnar um að bæta úr verðmerkingum sínum.

Neytendastofa mun halda verðmerkingaeftirliti sínu áfram og hvetur stofnunin neytendur til að halda áfram að senda henni ábendingar á vefslóðinni www.neytendastofa.is

TIL BAKA