Fara yfir á efnisvæði

Lög um neytendalán og lán tryggð með handveði

23.12.2014

Neytendastofa vill, í tilefni umfjöllunar í fjölmiðlum um lánveitingar Kaupum allt gull, vekja athygli á gildissviði laga um neytendalán og ástæðu þess að lánveitingar Kaupum allt gull telst ekki neytendalán.

Fjölmiðlar hafa greint frá því að lánveiting Kaupum allt gull teljist ekki neytendalán þar sem lánið sé aðeins veitt til þriggja mánaða í senn og endurnýist við hverja vaxtagreiðslu.

Samkvæmt lögum um neytendalán teljast öll lán sem einstaklingar taka hjá aðilum sem hafa atvinnu af lánveitingu vera neytendalán. Á þessu eru nokkrar undantekningar og má þar fyrst nefna að lánssamninga þar sem ábyrgð neytanda takmarkast eingöngu við framlagningu handveðs, í skilningi laga um samningsveð. Á grundvelli þessarar undanþágu er lánveiting Kaupum allt gull undanskilin lögunum.

Önnur undanþága frá lögum um neytendalán á við um lán sem eru til skemmri tíma en þriggja mánaða og bera lægri árlega hlutfallstölu kostnaðar en meðaltal innlánsvaxta almennra sparisjóðsbóka samkvæmt vaxtatöflu Seðlabankans. Til þess að sú undanþága eigi við verða bæði skilyrði að vera uppfyllt, þ.e. bæði að því er varðar tímalengd og árlega hlutfallstölu kostnaðar. Þessi undanþága á ekki við um lánssamninga Kaupum allt gull.

Að lokum má nefna að þrátt fyrir að tilteknir samningar séu undanþegnir kemur skýrt fram í undanþáguákvæði laganna að samningar sem settir eru upp með tilteknum hætti í því skyni að halda þeim utan gildissviðs laganna verða ekki undanþegnir lögunum.

TIL BAKA