Fara yfir á efnisvæði

Villandi frétt um tilboð Hagkaupa

18.02.2015

Á vefmiðlinum vísir.is var birt frétt sl. sunnudagskvöld sem vegna framsetningar og mynda sem þar birtust var afar villandi gagnvart neytendum, verslununum Hagkaup og Víði auk Neytendastofu. Leitað var eftir upplýsingum frá Neytendastofu um hvaða reglur væru í gildi varðandi útsölur og afslátt sem fyrirtæki veita sbr. reglur nr. 366/2008. Í reglunum er kveðið á um að afslátt sé aðeins unnt að veita af fyrra verði og nánar er í framkvæmd gerð krafa um að vara hafi raunverulega verið seld á fyrra verði. Fyrirsögn, myndbirtingar og tilvísanir sem fylgdu fréttinni voru ekki við hæfi að mati Neytendastofu og gefa lesanda þá hugmynd að stofnunin hafi tekið ákvörðun um lögmæti auglýsinga Hagkaupa og Víðis. Það er rangt og kom skýrt fram af hálfu Neytendastofu þegar leitað var upplýsinga að stofnunin tekur enga afstöðu til mála nema að undangenginni rannsókn á atvikum máls.

Neytendastofa harmar að framsetning fréttarinnar hafi verið með framangreindum hætti sem valdið geti slíkum misskilningi.

TIL BAKA