Fara yfir á efnisvæði

Neytendastofa bannar auglýsingar DV á iPad áskrift

27.04.2015

Neytendastofa hefur bannað DV ehf. birtingu fullyrðingarinnar „frítt“ og „í kaupbæti“ í auglýsingum dagblaðsins á áskriftarleið með iPad spjaldtölvu. Í auglýsingunum var til að mynda að finna eftirfarandi fullyrðingar: „Fáðu áskrift að DV og þú færð FRÍAN iPad með áskriftinni“ og „Fáðu áskrift að DV og þú færð iPad í kaupbæti með áskriftinni“. Áskriftargjald var ekki tekið fram í auglýsingunni. Á vef DV, dv.is, var að finna áskriftarleiðir dagblaðsins, þ.á.m. svonefnda iPad áskrift á 2.998. kr. á mánuði með skuldbindingu í 36 mánuði og Vefáskrift 1 á 895. kr. á mánuði fyrstu þrjá mánuðina og 1.790 á mánuði eftir það. Umræddar áskriftir voru eins að undanskildum iPad að eigin vali.

Neytendastofa taldi að ekki fengist annað séð en að kostnaður vegna iPad spjaldtölvunnar í áskriftarleið DV væri innifalinn í verði áskriftar og því hvorki frí né í kaupbæti þar sem áskriftarleiðin var 334.9% dýrari fyrstu þrjá mánuðina og 167,5% að þeim tíma liðnum miða við áskrift án iPad.

Að mati Neytendastofu brutu viðskiptahættirnir gegn 5. gr. og 8. gr. laga nr. 57/2005 um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu og 20. tölulið 1. gr. reglugerðar nr. 160/2009 um viðskiptahætti sem teljast undir öllum kringumstæðum óréttmætir.

Var DV ehf. því bannað að viðhafa viðskiptahættina og gert að greiða stjórnvaldssekt að fjárhæð 300.000 kr.

Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér.

TIL BAKA