Fara yfir á efnisvæði

Leiðbeiningar frá OECD um viðskipti á netinu

31.03.2016

Alþjóða efnahags- og framfarastofnunin, OECD, hefur nú gefið út leiðbeiningar um viðskiptahætti á netinu, (e. E-commerce Recommendation) en þeim er ætlað að auka traust neytenda á síbreytilegum og flóknum markaði netviðskipta. Leiðbeiningarnar voru upphaflega gefnar út árið 1999 en hafa nú verið teknar til endurskoðunar og endurútgefnar enda hefur margt breyst á sviði netviðskipta á síðastliðnum 17 árum.

Þegar leiðbeiningarnar voru upphaflega gefnar út árið 1999 töldust viðskipti yfir netið minna en 1% af heildarviðskiptum í smásölu í Bandaríkjunum og í Evrópusambandinu. Netviðskipti hafa hins vegar aukist mikið og eru þau nú 7% af heildarviðskiptum í smásölu í Evrópusambandinu og 11% í Bandaríkjunum. Helmingur íbúa í þessum löndum höfðu árið 2014 átt í einum eða fleiri netviðskiptum. Þar sem 75% af neytendum í OECD ríkjum fara daglega á netið er ljóst að möguleikarnir á þessum markaði eru enn miklir.

Nýja útgáfan er afrakstur samvinnu margra OECD ríkja og munu leiðbeiningarnar vera lykilþáttur í ráðstefnu OECD í júní næstkomandi um viðskipti á netinu. Tekið er á nýjustu þróun í netviðskiptum og tekur efni þeirra til alls kyns álitaefna á markaðnum, svo sem markaðssetningu á samfélagsmiðlum, persónuvernd, öryggi greiðslna á netinu og notkunar síma og spjaldtölva í viðskiptum, svo eitthvað sé nefnt.

Leiðbeiningarnar má nálgast hér.

TIL BAKA