Fara yfir á efnisvæði

Tímabundið sölubann á 89 tegundum af „spinnerum“

20.09.2017

Neytendastofa hefur lagt tímabundið bann við sölu og afhendingu á 89 tegundum af þyrilsnældum (e. fidget spinners) hjá innflytjanda hér á landi. Innflytjandinn hefur ekki enn sýnt fram á að varan sé örugg fyrir börn en hefur fjórar vikur til að sýna fram á að varan sé í lagi.

Umræddar þyrilsnældur voru sumar hverjar ekki CE-merktar auk þess sem aðrar merkingar skorti.

Í verslunum geta neytendur oft aðeins séð umbúðir vörunnar. Því vill Neytendastofa benda neytendum á að á umbúðum megi greina vísbendingar um hvort leikfang sé í lagi. Þær vísbendingar séu m.a. CE-merking, tilgreining á framleiðanda, heimilisfangi framleiðanda og framleiðslunúmeri vörunnar, auk tilheyrandi varúðarleiðbeininga. Ef slíkar merkingar eru ekki á vörunni þá séu líkur á því að varan sé ekki í lagi.

Mikið hefur verið um þyrilsnældur sem eru ekki í lagi og geta reynst börnum hættulegar. Samkvæmt upplýsingum og ábendingum sem Neytendastofu hafa borist hafa þyrilsnældur brotnað við lítið hnjask og litlir aðskotahlutir hafa losnað frá þeim. Þá hafa fundist þyrilsnældur með beitt blöð, sem auðveldlega gæti skaðað börn að leik. Rafhlöðuhólf í LED þyrilsnældum hafa einnig opnast mjög auðveldlega svo að rafhlaða er aðgengileg sem er sérstaklega hættulegt ungum börnum vegna hættu á að þau stingi rafhlöðum upp í sig.

Leikföng eiga að vera CE-merkt. CE-merkingin er yfirlýsing frá framleiðanda um að leikfangið fullnægi þeim kröfum sem gerðar hafa verið til vörunnar vegna heilsu- og öryggisverndar á Íslandi og í öðrum löndum innan Evrópska efnahagssvæðisins. Til að festa megi CE-merkið á leikfangið þarf að hafa farið fram prófun á leikfanginu, t.d. um hættu sem af því gæti hlotist og efnainnihaldi þess. Þá þarf framleiðandinn að lýsa því yfir að leikfangið sé í samræmi við kröfur um öryggi leikfanga, með svokallaðri samræmisyfirlýsingu. Innflytjandi leikfangs þarf að tryggja að framangreind gögn liggi fyrir svo að unnt sé að sýna fram á að heimilt sé að selja leikfangið á Íslandi. Innflytjandi þarf einnig að varðveita samræmisyfirlýsingu í 10 ár eftir að leikfangið hefur verið sett á markað.

TIL BAKA