Fara yfir á efnisvæði

Duldar auglýsingar Domino‘s og Íslandsbanka bannaðar

07.06.2018

Neytendastofa hefur bannað fyrirtækjunum Pizza-Pizza ehf. og Íslandsbanka hf. að nota duldar auglýsingar.

Neytendastofu bárust ábendingar vegna færslna einstaklings á samfélagsmiðlinum Snapchat þar sem fjallað var um vörur Pizza-Pizza í tengslum við markaðssetningarherferð Íslandsbanka „Meistaramánuð Íslandsbanka“. Einnig bárust ábendingar vegna færslna einstaklinga á samfélagsmiðlunum Twitter og Instagram þar sem komið var á framfæri markaðssetningarefni og vörumerki Íslandsbanka tengdu „Meistaramánuði Íslandsbanka“. Ábendingarnar lutu að því að hugsanlega væri um markaðssetningu að ræða en slíkt væri hins vegar ekki tekið fram.

Neytendastofa krafði fyrirtækin um upplýsingar um endurgjald einstaklinganna fyrir umfjöllunina, aðkomu fyrirtækjanna að undirbúningi umfjöllunarinnar og hvort þriðji aðili hefði annast milligöngu. Við meðferð málsins kom fram að einstaklingarnir höfðu þegið greiðslur eða annað endurgjald fyrir umfjöllunina. Neytendastofa taldi að um væri að ræða markaðssetningu og að ekki hefði komið fram með nægilega skýrum hætti að umfjöllunin hefði verið auglýsing eða að hún væri gerð í viðskiptalegum tilgangi, en slíkt verður að koma skýrt fram.

Neytendastofa taldi að um væri að ræða duldar auglýsingar og að Íslandsbanki og Pizza-Pizza hefðu brotið lög með framangreindum hætti.

Ákvörðun varðandi Pizza-Pizza ehf. má nálgast hér.

Ákvörðun varðandi Íslandsbanki hf. má nálgast hér.

Neytendastofa hefur gefið út leiðbeiningar um auðþekkjanlegar auglýsingar fyrir áhrifavalda og fyrirtæki sem má nálgast hér.

TIL BAKA