Fara yfir á efnisvæði

Blandaðar nikótínáfyllingar

20.09.2019

Neytendastofa hefur fengið ábendingar um söluaðila sem selja nikótínáfyllingar sem þeir blanda sjálfir. Um er að ræða tilfelli þar sem nikótíni er bætt út í nikótínlausa vökva sem seldir eru í verslunum.

Fulltrúar Neytendastofu hafa tekið úr sölu um 100 tegundir af áfyllingum þar sem nikótíni hefur verið bætt við vökva á sölustað. Þegar vökvi hefur verið blandaður af söluaðila kemur ekki fram hve mikið nikótín er í vökvanum. Erfitt er að komast að hvaða innihaldsefni eru í slíkri áfyllingu, við hvaða aðstæður blöndunin fer fram, hvernig mælingar fara fram eða hver eiturhrif eru.

Neytendastofa vekur athygli á að einkenni eitrunar af völdum nikótíns eru til dæmis uppköst, hraður hjartsláttur, öndunarerfiðleikar og aukin munnvatnsframleiðsla. Áfyllingar fyrir rafrettur mega að hámarki innihalda 20 mg/ml af nikótínvökva.

Tilkynna þarf áfyllingar með nikótíni með nákvæmum hætti í EU-CEG, sameiginlegt skráningarkerfi innan Evrópu, og vökvinn þarf að uppfylla öll skilyrði laga og reglugerða sem við hann eiga. Einnig þarf að afla eiturefnaleyfis frá Vinnueftirliti ríkisins við framkvæmd vinnu sem nota að staðaldri eiturefni eða efnavöru sem flokkast sem eiturefni að uppfylltum skilyrðum.

Neytendastofa hefur á heimasíðu sinni lista yfir rafrettur og nikótínáfyllingar fyrir þær sem hafa hlotið markaðsleyfi.

Ábendingum vegna rafrettna og áfyllinga sem grunur er um að séu ekki í lagi má koma til Neytendastofu í gegnum mínar síður á heimasíðunni: www.neytendastofa.is.


TIL BAKA