Fara yfir á efnisvæði

Samanburðarauglýsingar Sýnar villandi

25.09.2019

Neytendastofu barst kvörtun frá Símanum yfir samanburðarauglýsingum Sýnar. Í auglýsingunni, sem beint var til viðskiptavina með Risapakkann frá Stöð 2, var fullyrt að viðkomandi gæti sparað verulegar fjárhæðir á hverju ári með því að færa fjarskipti sín í þjónustuna Heima sem Vodafone býður. Síminn taldi auglýsingarnar ósannar, villandi og ósanngjarnar m.a. vegna þess að í auglýsingunni kæmi ekki fram með nægilega skýrum hætti hvaða áskriftarleiðir væru bornar saman eða hvað hver þjónustuþáttur kosti.

Sýn hafnaði öllum athugasemdum Símans, öðrum en þeim að tekið hafi verið mið af rangri heimasímaþjónustu Símans. Bent var sérstaklega á að auglýsingunni var aðeins beint að þeim neytendum sem þá þegar keyptu Risapakka Stöðvar 2. Þjónustuþættirnir hafi verið að fullu leyti sambærilegir og samanburðarhæfir.

Neytendastofa taldi þá þjónustu sem borin er saman í auglýsingunni samanburðarhæfa. Aftur á móti taldi Neytendastofa auglýsinguna villandi og fullyrðingu um sparnað ósannaða þar sem rangar upplýsingar komu fram í auglýsingunni. Af þeirri ástæðu var Sýn bannað að viðhafa þá viðskiptahætti.

Ákvörðun nr. 38/2019 má lesa í heild sinni hér.


TIL BAKA