Fara yfir á efnisvæði

Faggilding kvörðunarþjónustu gagnvart ISO 17025:2017

21.11.2019

FréttamyndAllt frá stofnun Neytendastofu hefur mælifræðisvið stofnunarinnar boðið upp á margvíslega þjónustu tengda kvörðunum mælitækja. Vottorð fyrir kvarðanir fylgja kröfum alþjóðlega staðalsins ISO 17025 (Almennar kröfur og hæfni prófunar- og kvörðunarstofa) og allt frá árinu 2005 hefur stofnunin verið faggilt í kvörðun lóða og voga ásamt raf- og glerhitamæla. Faggildingin er sótt til bresku faggildingarstofunnar UKAS (United Kingdom Accreditation Service) og koma fulltrúar hennar árlega og taka út verklag það sem fellur undir þann hluta starfseminnar sem faggiltur er. Faggilt kvörðun tryggir að unnið sé eftir kröfum staðals og tryggir jafnframt áreiðanleika mælinga.

Árið 2017 var gefin út ný útgáfa ISO 17025 staðalsins og stofnunum og fyrirtækjum um heim allan gefinn aðlögunartími til að innleiða hann. All nokkrar breytingar voru gerðar frá fyrri útgáfu, meðal annars varðandi þagmælsku og sjálfstæði, ásamt auknum kröfum um áhættumat. Starfsmenn Neytendastofu hafa síðastliðið ár unnið að innleiðingu hins nýja staðals, en sú vinna felst í uppfærslu gæðaskjala og verklags í samræmi við breyttar kröfur.

Snemmsumars komu sérfræðingar UKAS og tóku kvörðunarþjónustuna í fyrsta sinn út gagnvart þessari nýju útgáfu staðalsins. Nú hefur svo borist staðfesting þess efnis frá UKAS að búið væri að fara yfir og samþykkja allar þær breytingar sem gerðar voru og er kvörðunarþjónustan þar með faggilt gagnvart ISO 17025:2017. Kvörðunargeta stofnunarinnar helst óbreytt, en nýjustu útgáfu hennar má ætíð finna á heimasíðu UKAS (http://www.ukas.org) með því að slá inn faggildingarnúmer Neytendastofu sem er 0823. Sem fyrr má svo nálgast frekari upplýsingar hér á heimasíðunni sem og með beinu sambandi við sérfræðinga stofnunarinnar.

TIL BAKA