Fara yfir á efnisvæði

Hirzlan sektuð fyrir villandi útsöluauglýsingar

17.12.2019

Neytendastofu barst kvörtun frá Pennanum yfir villandi útsöluauglýsingum Hirzlunnar. Kvörtunin snéri annars vegar að því að vörur hafi verið boðnar á útsölu lengur en í sex vikur og hins vegar að því að vörur hafi verið boðnar á rýmingarsölu en síðar verið til sölu á venjulegu verði.

Hirzlan hafnaði því að brotið hafi verið gegn góðum viðskiptaháttum eða að neytendur hafi verið blekktir með auglýsingum um útsölur. Hirzlan gekkst þó við því að hafa fyrir mistök boðið á venjulegu verði þær vörur sem ekki seldust.

Með kvörtun Pennans voru lagðar fram auglýsingar Hrizlunnar sem sýndu að tilteknar vörur hafi verið á útsölu lengur en í sex vikur. Við meðferð málsins tókst Hirzlunni ekki að sýna fram á að vörurnar hafi á tímabilinu verið seldar á venjulegu verði. Því taldi Neytendastofa viðskiptahætti Hirzlunnar til þess fallna að villa fyrir neytendum og hafa áhrif á fjárhagslega hagsmuni þeirra.

Þá var fjallað um það í ákvörðuninni að samkvæmt reglum sem gilda um rýmingarsölur skulu vörur sem boðnar hafa verið á rýmingarsölu ekki seldar á venjulegu verði síðar.

Í ljósi ofangreindra brota taldi Neytendastofa rétt að leggja 200.000 kr. stjórnvaldssekt á Hrizluna.

Ákvörðun nr. 52/2019 má lesa í heild sinni hér.


TIL BAKA