Fara yfir á efnisvæði

Sölubann á áfyllingar hjá Drekanum

01.05.2020

Neytendastofa fór í eftirlitsferðir í Drekann, Njálsgötu sem er í eigu Urriðafoss ehf. Kom í ljós að 51 tegundir áfyllinga höfðu ekki verið tilkynntar til Neytendastofu. Þá báru sex áfyllingar tvo límmiða á umbúðum um nikótínstyrkleika. Á innri miða var styrkur nikótíns tilgreindur annað hvort 25 eða 50 mg/ml en á ytri límmiða var styrkur nikótíns tilgreindur 20 mg/ml, sem er leyfilegur hámarksstyrkleiki á Íslandi. Eigandi Drekans féllst á eyðingu áfyllinganna á þeim grundvelli að styrkur nikótíns væri umfram leyfilegan hámarksstyrkleika. Til viðbótar framangreindu báru þrjár áfyllingar án nikótíns jafnframt ekki fullnægjandi upplýsingar um innihald og um notkun og geymslu.

Þar sem áfyllingarnar innihéldu nikótín bar Drekanum að tilkynna áfyllingarnar til Neytendastofu. Drekanum var veitt færi á að tilkynna þær áfyllingar sem ekki voru tilkynntar og gera úrbætur á merkingum. Engar tillögur að úrbótum bárust Neytendastofu.

Að mati Neytendastofu gátu áfyllingarnar ekki talist öruggar og bannaði stofnunin því sölu- og afhendingu á þeim. Drekanum var falið að eyða áfyllingunum innan sex vikna frá dagsetningu ákvörðunarinnar.

Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér


TIL BAKA