Fara yfir á efnisvæði

Ákvörðun um viðskiptahætti Gildis við lánveitingu

26.10.2012

Á árinu 2011 barst Neytendastofu kvörtun frá lántaka yfir viðskiptaháttum Gildis lífeyrissjóður við lánveitingu. Kvörtunin snéri annars vegar að því að samkvæmt skilmálum lánsins væri endurgreiðsla þess bundið vísitölu neysluverð en í framkvæmd hafi það verið tengt vísitölu neysluverðs til verðtryggingar. Hins vegar snéri kvörtunin að því að lántakinn hafi ekki verið upplýstur um að þremur dögum frá undirritun lánsins kæmi til mikillar vísitöluhækkunar sem áhrif hefði á lánið. Hélt lántaki því fram að Gildi hafi vitað af væntanlegri hækkun og því hafi lífeyrissjóðnum borið að upplýsa lántakann um að endurgreiðsla lánsins kæmi til með að hækka verulega. Hægt væri að komast hjá hækkuninni með því að bíða með lánveitinguna í þrjá daga.

Neytendastofa lauk málinu á sínum tíma með ákvörðun Neytendastofu nr. 29/2011 þar sem hún komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri ástæða til að gera athugsemdir við vísitölutengingu lánsins. Hins vegar taldi Neytendastofa Gildi hafi brotið gegn lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu með því að upplýsa lántakann ekki um fyrirséða vísitöluhækkun.

Gildi kærði ákvörðunina til áfrýjunarnefndar neytendamála sem felldi hana úr gildi vegna lagaskila og senda málið til nýrrar meðferðar og ákvörðunar hjá Neytendastofu.
Neytendastofa hefur nú lokið málinu að nýju með ákvörðun nr. 40/2012. Neytendastofa taldi ekki ástæðu til aðgerða vegna kvörtunar yfir vísitölutengingar lánsins en stofnunin taldi Gildi hafi brotið gegn þágildandi ákvæðum 5. og 6. gr. laga nr. 57/2005 með því að upplýsa lántakann ekki um fyrirséða vísitöluhækkun.

Ákvörðun nr. 40/2012 má lesa í heild sinni hér

TIL BAKA