Fara yfir á efnisvæði

Sameiginlegt átak Neytendastofu og tollyfirvalda gegn hættulegum sígarettukveikjurum

25.03.2011

Neytendastofa tekur þátt í verkefni um öryggi kveikjara á vegum Prosafe, samstarfsnets evrópskra stjórnvalda á sviði vöruöryggis. Verkefnið er sameiginlegt markaðseftirlit þrettán aðildarríkja EES sem ætlað er að koma í veg fyrir að markaðssettir og seldir séu á Evrópumarkaði kveikjarar án barnalæsinga og kveikjarar með óhefðbundið útlit sem höfða sérstaklega til barna. Nú hafa tollyfirvöld einnig samþykkt að taka þátt í verkefninu og kemur það til að styrkja átakið enn frekar.

Verkefnið hefur leitt til þess að kveikjurum með óhefðbundið útlit  hefur nánast verið útrýmt af mörkuðum í Evrópu, en markmiðið hefur einnig verið að fækka öðrum hættulegum kveikjurum á Evrópumarkaðnum. Í átakinu hafa verið framkvæmdar um 4,500 skoðanir hjá innflytjendum, heildsölum og smásölum, eftirlit með meira en 5,500 kveikjarategundum og nærri 1,300 aðgerðir gegn hættulegum kveikjurum, m.a. þar sem rekstraraðilinn gat ekki sýnt fram á nauðsynleg tækniskjöl. Tollyfirvöld hafa skoðað nærri 8,500 vörusendingar við komuna til Evrópu, og þá allt frá smáum sendingum til heilla gámafarma.

Þær 13 Evrópuþjóðir sem taka þátt í kveikjaraverkefninu hafa nú hafið annan áfanga verkefnisins sem felst í því að aðgerðir verða hertar á næstu tveimur mánuðum, þ.e. frá mars til maí 2011. Það felur í sér eftirfarandi:

•   Aukið markaðseftirlit og skoðanir á kveikjurum
•   Hert landamæraeftirlit við innflutning á kveikjurum
•   Kveikjarar sem hugsanlega teljast hættulegir verða prófaðir á rannsóknarstofum
•   Tryggja að lögum verði framfylgt vegna hættulegra kveikjara

Á Íslandi verður framkvæmd verkefnisins í höndum Neytendastofu og tollyfirvalda.

Í RAPEX tilkynningarkerfi Evrópusambandsins má m.a. finna tilkynningar um kveikjara sem eru taldir hættulegir neytendum. Nánari upplýsingar um hættulega kveikjara og aðrar hættulegar vörur má finna  á heimasíðu Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins:
http://ec.europa.eu/consumers/dyna/rapex/rapex_archives_en.cfm


 

TIL BAKA