Fara yfir á efnisvæði

Niðurstöður könnunar um bankareikninga fyrir neytendur

02.04.2013

Gerð var almenn og opin könnun hjá ESB til að fá fram sjónarmið stjórnvalda og hagsmunaaðila á EES svæðinu hvort allir geti stofnað bankareikninga, hvort auðvelt sé fyrir neytendur að færa viðskipti milli banka og hvort vandamál séu varðandi upplýsingar sem gefnar eru til neytenda um þjónustugjöld banka.

Þjónustugjöld
Í samantekt og niðurstöðum kemur fram að það er almennt vandamál fyrir neytendur að hafa yfirsýn yfir þjónustugjöld sem bankar krefjast. Margir leggja til að ESB grípi til aðgerða og setji reglur sem myndu auka skyldu banka til að veita upplýsingar til neytenda, styrkja neytendavernd og auka samkeppnishæfni. Ýmsir telja þó að aðgerðir á þessu sviði eigi að vera á ábyrgð þjóðþinga í hverju aðildarríki fyrir sig. Bankar og fjármálafyrirtæki telja hins vegar að á vettvangi samtaka þeirra eigi að ákveða sameiginlega hvaða viðmið eigi að nota þegar gefnar eru upplýsingar um þjónustugjöld til neytenda. Af hálfu samtaka neytenda er bent á að slíkar upplýsingar eigi að vera eins mikið staðlaðar og unnt er til að neytendur geti gert raunhæfan samanburð á gjöldum.

Leitarvélar og samanburður
Leitarvélar fyrir neytendur þar sem hægt er að bera saman þjónustugjöld eru taldar vera mikilvægar til að auka gagnsæi og stuðla að samkeppni milli banka varðandi gjöld sem þeir taka af neytendum. Í könnuninni kemur fram að af hálfu stjórnvalda sem veittu svör er lögð áhersla á að slíkar samanburðarleitarvélar verði að vera undir eftirliti og þær megi ekki á neinn hátt veita villandi upplýsingar til neytenda.

Stofnun bankareikninga
Almennt virðast ekki vera vandkvæði á því fyrir neytendur að geta stofnað til viðskipta í bönkum. Mikilvægt er að allir neytendur hafi aðgang að lágmarksbankaþjónustu og samkvæmt könnuninni bendir allt til þess að aðgengi neytenda að bankaþjónustu sé almennt ekki vandamál á EES-svæðinu.

Niðurstöður könnunarinnar má lesa í heild hér.

TIL BAKA