Fara yfir á efnisvæði

Verðvernd BYKO og fullyrðingar um lægsta verðið

05.07.2012

Múrbúðin og Húsasmiðjan kvörtuðu til Neytendastofu yfir auglýsingum BYKO um verðvernd og fullyrðingum um lægsta verðið. Húsasmiðjan taldi fullyrðingu um lægsta verðið gefa til kynna að lægsta verð á markaði sé alltaf hjá BYKO og því verði félagið að geta sannað fullyrðinguna. Þá taldi Múrbúðin verðvernd BYKO almennt villandi þar sem henni væru sett ströng skilyrði og BYKO ákveði sjálft hvaða vörur keppinauta teljist sambærilegar og falli þar með undir verðverndina.

BYKO vísaði til þess að félagið kannaði reglulega verð á markaði í þeim tilgangi að bjóða lægsta verðið en ef svo bæri undir að keppinautar byðu vöru á lægra verði nytu neytendur verðverndar sem tryggi að þeir geti ávallt fengið lægsta verðið hjá BYKO. Neytendastofa féllst ekki á þessar skýringar.

Í niðurstöðum ákvörðunarinnar segir að fullyrðing BYKO um lægsta verðið sé mjög afdráttarlaus og gefi til kynna að allar vörur félagsins séu ávallt ódýrari en hjá keppinautum. Lögð hafi verið fram gögn í málinu sem sýni að dæmi séu um lægra verð hjá keppinautum. Þrátt fyrir að verðvernd BYKO hafi tekið á þeim málum þá breyti það því ekki að fullyrðingin sé röng. BYKO var því bannað að birta fullyrðingar um að félagið bjóði lægsta verðið.

Neytendastofa taldi skilmála verðverndar BYKO almennt í samræmi við ákvæði laga og reglna. Neytendastofa gerði þó athugasemdir við það skilyrði að vara keppinautar yrði að vera auglýst á lægra verði, ekki væri nóg að hún væri boðin til sölu. Slíkt skilyrðið taldi Neytendastofa ekki í samræmi við reglur eða viðamiklar auglýsingar BYKO um verðverndina.

Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér.

TIL BAKA