Fara yfir á efnisvæði

Ekki ástæða til aðgerða vegna auglýsinga á ginsengi

18.08.2010

Neytendastofa hefur tekið ákvörðun í máli vegna kvörtunar Eðalvara á auglýsingum Eggerts Kristjánssonar hf. á Rauðu kóresku Ginsengi.

Kvörtunin snéri að því að Eðalvörur töldu Eggert Kristjánsson hf. líkja eftir vöru og auglýsingum Eðalvara í auglýsingum sínum auk þess sem í einni auglýsingunni væri notast við heiti á þeirri vöru sem Eðalvörur selja, Rautt Eðal Ginseng. Töldu Eðalvörur að með því væri leitast við að viðhalda ruglingi hjá neytendum á milli Rauðs kóresk ginsengs og Rauðu Eðal Ginsengs.

Í gögnum málsins kom fram að auglýsingastofan sem vann auglýsingar á Rauðu kóresku ginsengi hafi fyrir mistök sett nafn Rauðs Eðal Ginsengs í eina auglýsinguna, þau mistök hafi verið leiðrétt um leið og upp komst um þau.

Neytendastofa taldi ekki sýnt fram á það í málinu að ætlunin með auglýsingum á Rauðu kóresku ginsengi hafi verið að líkja eftir auglýsingum eða vöru Rauðs Eðal Ginsengs eða með öðrum hætti valda ruglingi hjá neytendum. Þrátt fyrir að Neytendastofa teldi auglýsinguna þar sem notast var við heitið Rautt Eðal Ginseng brjóta gegn lögum var aðeins um eina auglýsingu að ræða og voru mistökin leiðrétt að eigin frumkvæði Eggerts Kristjánssonar. Neytendastofa taldi því ekki ástæðu til aðgerða af hálfu stofnunarinnar í málinu.

Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér

TIL BAKA