Fara yfir á efnisvæði

Athugun Neytendastofu á vefsíðum

29.09.2011

Neytendastofa tekur þátt í samvinnu stjórnvalda á Evrópska efnahagssvæðinu um neytendavernd, sbr. ákvæði laga nr. 56/2007. Einn þátturinn í samstarfinu eru samræmdar aðgerðir á ýmsum afmörkuðum sviðum viðskiptalífsins, á ensku nefnt „sweep“. Stjórnvöld í þeim ríkjum sem taka þátt í aðgerðunum kanna samtímis og með sama hætti í öllum ríkjunum hvort réttindi neytenda séu virt. Í kjölfarið kanna stjórnvöld nánar þau fyrirtæki sem mögulega brjóta gegn lögum og reglum og grípa til aðgerða ef um brot er að ræða.

Miðasala á Netinu
Í júní 2010 gerði Neytendastofa athugun á vefsíðum sem selja miða á menningar- og íþróttaviðburði.  26 aðildarríki ESB auk Noregs og Íslands tóku þátt í athuguninni sem tók til 414 vefsíðna. Þegar könnunin var gerð uppfylltu aðeins 44% vefsíðna þau skilyrði sem gerð eru þegar fyrirtæki selja á Netinu.  Nú ári síðar eftir aðgerðir stjórnvalda í þeim ríkjum sem tóku þátt uppfylla 88% vefsíðna skilyrðin. 
Algengustu misbrestirnir voru ófullnægjandi upplýsingar um endanlegt verð, ósanngjarna samningsskilmála og skortur á upplýsingum um seljanda.

Á Íslandi voru kannaðar sex vefsíður og gerðar athugasemdir við tvær þeirra.  Bæði fyrirtækin tóku tillit til athugasemda Neytendastofu og lagfærðu vefsíður sínar. 

Fréttatilkynningu Evrópusambandsins í heild má lesa hér.

TIL BAKA