Fara yfir á efnisvæði

Verslanir í Kringlunni og Smáralind standast enn ekki kröfur um verðmerkingar

31.03.2011

Um miðjan febrúar sl. fylgdi fulltrúi Neytendastofu eftir skoðun á verðmerkingum sem gerð var í byrjun desember 2010. Farið var í 96 verslanir í Kringlunni og Smáralind sem ekki voru með verðmerkingar í lagi í desember. Skoðað var hvort verðmerkingar voru í lagi í verslun og í sýningarglugga.

Í Kringlunni var farið í 57 verslanir, af þeim voru 47 verslanir með sýningarglugga. Enn vantaði upp á verðmerkingar í sýningargluggum hjá 23 verslunum (49%). Einnig voru vörur ekki verðmerktar sem skyldi inni í 16 verslunum (28%).

Í Smáralind voru 39 verslanir heimsóttar, þarf af var 31 með sýningarglugga. Af þeim voru 23 verslanir (74%) með verðmerkingarí sýningargluggum í lagi en átta verslanir (26%) þurfa að bæta verðmerkingar. Sömu prósentutölur eiga við um verðmerkingar inni í verslunum, 29 verslanir (74%) voru með verðmerkingar í lagi, en tíu verslanir (26%) þurfa að laga þær.

Augljóst er að verðmerkingar í stærstu verslunarmiðstöðvum landsins eru langt frá því að vera viðunandi og þurfa verslunareigendur að fara vel yfir verðmerkingar og verklag í verslunum sínum og bregðast fljótt við tilmælum Neytendastofu til að forðast sektir.

TIL BAKA