Fara yfir á efnisvæði

Sími, net og sjónvarpsáskriftir – Styttri binditími

19.06.2013

Norrænar neytendastofur telja að það verði að auðvelda neytendum að færa viðskipti sín með stuttum fyrirvara frá einu símafyrirtæki til annars. Sama skuli gilda varðandi áskriftarsamninga að netþjónustu og sjónvarpi.

Markaðsaðstæður breytast fljótt. Það er því mikilvægt fyrir neytendur að hafa greiðan aðgang að nýrri tækni og að geta gert samninga við nýja þjónustuveitendur og notfæra sér sífellt fjölbreyttari þjónustu sem þeir bjóða. Þess vegna er mikilvægt að þjónustuveitendur geri neytendum auðvelt fyrir að losna undan samningi, með því að forðast að hafa langan bindistíma, langa uppsagnafresti eða krefjast greiðslu við uppsögn á samningi.

Styttri binditími
Miklu máli skiptir að þjónustuveitendur hafi stuttan binditíma í samningum. Meginreglan ætti að vera að samningar eigi að vera opnir og án nokkurs binditíma. Í dag er binditími í norrænum ríkjum allt frá því að vera 6 mánuðir og upp í 24 mánuði þegar um síma, net- og sjónvarpsáskriftir er að ræða. Það er álit norrænu neytendastofanna að binditími ætti aldrei vera meiri en 6 mánuðir. Hér má lesa nánar um þetta:
http://www.konsumentverket.se/Nyheter/Pressmeddelanden/Pressmeddelanden-2012/Nordiskt-KO-mote-Dags-att-begransa-bindningstiderna/


Góð þjónustu án þess að festa neytendur
Það á að vera auðvelt að segja upp samningi sem neytandi vill ekki lengur vera bundinn af. Uppsagnarfrestur ætti aldrei að vera lengri en 1 mánuður. Þjónustuveitendur ættu ekki að gera kröfu um neitt gjald þegar að samningi er sagt upp og ekki setja flókin skilyrði fyrir uppsögn á samningi. Í dag er mjög auðvelt að gera samninga á þessum mörkuðum og því telja norrænar neytendastofur að það eigi að vera jafn auðvelt að ganga út úr samningi. Ef þjónustan hentar neytendum ekki lengur eða er ekki í samræmi við þarfir þeirra má ekki vera nein hindrun til að hætta viðskiptunum. Þjónustuveitendur eiga að tryggja ánægju viðskiptavina og velvild en ekki að festa þá inní samningum. 

TIL BAKA