Fara yfir á efnisvæði

Skartgripir og eðalsteinar

12.12.2012

Fréttamynd

Við kaup á skartgripum eða öðrum vörum úr eðalmálmum eiga neytendur erfitt með að átta sig á því hversu mikið gull eða silfur er í vörunni og hvort um eðalstein er að ræða. Neytendastofa hvetur því fólk til að kaupa aðeins slíkar vörur ef þær eru með ábyrgðarstimplum. Mikilvægt er að neytendur passi sjálfir upp á að þær merkingar sem eigi að vera á vörunni séu fyrir hendi eða að þær fylgi.

Á Íslandi gilda lög um vörur unnar úr gulli, silfri, palladíum og platínu. Í lögunum er þess krafist að vörurnar séu merkar með hreinleikastimpli sem staðfestir hlutfall eðalmáls í hlutnum og nafnastimpli sem auðkennir framleiðanda, seljanda eða innflytjanda vöru. Lögin eiga ekki eingöngu við um skartgripi heldur gilda þau einnig um borðbúnað og hnífapör, t.d. jólaskeiðar. Við kaup á dýrum skartgripum og hlutum úr eðalmálmum þurfa neytendur því að sýna aðgát og kanna hvort viðkomandi vara sé með hreinleika- og nafnastimpli.

Engin sambærileg lög gilda hér á landi um upplýsingaskyldu við sölu eðalsteina. Eðalsteinar eða gimsteinar eru náttúrulegir steinar eins og t.d. demantar, rúbínar, smaragðar, safírar, ópalar og perlur. Verðmæti eðalsteina fer eftir ýmsu svo sem fegurð, hörku, stærð, ljósbroti, slípun og því hversu sjaldgæfur steinninn er.

Vegna þess hversu dýrir eðalsteinar eru hafa menn í margar aldir reynt að búa til eftirlíkingar af þessum steinum. Nú til dags eru þessir gervikristallar það vel gerðir að það er nær ómögulegt fyrir neytendur að greina á milli hvað sé ekta og hvað ekki. Þessir gervikristallar líkjast eðalsteinum en eru framleiddir í verksmiðjum og eru mun ódýrari en náttúrulegir steinar. Nauðsynlegt er því fyrir neytendur að fá staðfestingu í verslunum hvernig steina þeir eru að kaupa. Ef það eru t.d. demantar þá ættu kaupendur að óska eftir upprunavottorði, þar sem fram kemur m.a. hve mörg karöt steinninn er og í hvaða gæðaflokki. 

Neytendastofa sér um eftirlit með vörum unnum úr eðalmálmum. Ábendingum vegna rangra eða ófullnægjandi merkinga má koma til Neytendastofu í gegnum rafræna Neytendastofu.

TIL BAKA