Fara yfir á efnisvæði

Ákvörðun Neytendastofu staðfest

15.03.2010

Með bréfi Neytendastofu, dags. 29. júní 2009, var þeim eindregnu tilmælum beint til Hagkaupa að láta af notkun fullyrðinganna „Landsins mesta vöruúrval snyrtivöru“, „Mesta vöruúrval landsins“, „Landsins mesta úrval“, „Stærsti salatbarinn“ og „Stærsta nammilandið“. Hagkaup óskaði eftir endurskoðun á afstöðu stofnunarinnar og var því hafnað með bréfi Neytendastofu, dags. 17. nóvember 2009.

Með kæru til áfrýjunarnefndar fór Hagkaup fram á að framangreindar ákvarðanir Neytendastofu yrðu felldar úr gildi. Neytendastofa fór fram á að kæru vegna ákvörðunar frá 29. júní 2009 yrði vikið frá sem of seint fram kominni og að ákvörðun stofnunarinnar frá 17. nóvember s.á. yrði staðfest.

Í úrskurði áfrýjunarnefndar er frávísunarkröfu Neytendastofu vegna fyrri ákvörðunarinnar hafnað á þeim grundvelli að stofnunin hafi ekki sinnt leiðbeiningarskyldu sinni með því að vekja ekki athygli Hagkaupa á kæruheimild. Skortur á leiðbeiningunum yrði ekki til þess að ákvörðunin væri ógild en kærufrestur yrði að teljast rúmur. Áfrýjunarnefndin staðfesti hins vegar þá ákvörðun Neytendastofu að banna fullyrðingarnar. Þá var kröfu Hagkaupa um að málið yrði tekið til endurskoðunar hafnað.

Úrskurðinn má lesa í heild sinni hér.

TIL BAKA