Fara yfir á efnisvæði

Ársskýrsla Neytendastofu 2011

16.07.2012

Ársskýrsla Neytendastofu fyrir árið 2011 er komin út.  Símtöl á árinu voru fimm þúsund talsins. Heildarmálafjöldi hefur farið vaxandi á öllum starfssviðum stofnunarinnar. Á árinu hefur verið lögð áhersla á að kanna hvort þyngd vöru í forpakkningum sé sú sem lofað er á umbúðunum. Reglur um löggildingu mælitækja til fyrstu notkunar breyttust fyrir nokkrum árum. Í ljós hefur komið að á undanförnum tveimur árum hefur ekki reynst unnt að endurlöggilda hitaveitumæla með sama hætti og áður. Neytendastofa mun kanna ástæður þess og leggja til úrbætur þegar að niðurstöður liggja fyrir. Neytendur eiga jafnframt rétt á að þeim stafi ekki hætta af vörum sem framleiddar eru og seldar á markaði.  Neytendastofa skoðaði um 700 vörur og í fjölda tilvika tóku seljendur vörur af markaði sem ekki teljast vera öruggar, bættu úr merkingum eða leiðbeiningum. Stofnunin tók þátt í norrænni könnun á orkumerkingum ísskápa og hvort að upplýsingar framleiðenda væru réttar. Í ljós kom að 2 eintök af 11 uppfylltu ekki yfirlýsingar framleiðanda um orkunotkun og fengu framleiðendur þeirra fyrirmæli um að endurmerkja vöruna. Nýjar reglur um verðmerkingar tóku gildi á árinu. Almenna reglan er sú að allar vörur skal verðmerkja en það nýmæli er í reglunum að verslunum er heimilt í undantekningartilvikum að tilgreina einingaverð vöru þ.e. kr/kg nálægt vöru en nákvæmt verð geta neytendur fengið í verðskanna sem er nálægt vörunni. Þetta á einkum við um matvöru sem ekki er í staðlaðri þyngd. Neytendur og fyrritæki leita í vaxandi mæli til stofnunarinnar til að afla upplýsinga og ráðgjafar um lögbundin réttindi neytenda. Mikilvægi neytendaverndar fer vaxandi og er það ánægjuleg þróun.

Ársskýrslu Neytendastofu í heild má nálgast hér.

TIL BAKA