Fara yfir á efnisvæði

Verðmerkingar á Akranesi í september 2009

02.10.2009

Þann 7. september sl. fóru starfsmenn Neytendastofu á Akranes og athuguðu ástand verðmerkinga hjá 30 fyrirtækjum. Ástand verðmerkinga var nokkuð gott, helst  vantaði upp á verðmerkingar hjá matvöruverslunum og sérverslunum.

Farið var í 3 matvöruverslanir á Akranesi; Bónus, Krónuna og Samkaup Strax.  Athugað var hvort verðmerkingar í verslun væru í lagi og borið saman hillu- og kassaverð á 50 vörutegundum sem valdar voru af handahófi, þar af 10 úr grænmetiskæli.

Kom í ljós að verðmerkingum hafði hrakað örlítið frá síðustu könnun sem gerð var í desember 2008, núna bar meira á að vörur væru óverðmerktar. Bónus kom best út í þessari könnun og var eina matvöruverslunin sem fékk ekki áminningu um að lagfæra verðmerkingar. Af þeim 150 vörum sem voru skoðaðar í verslununum, voru verðmerkingar á 73% vara í lagi, 15% vara voru óverðmerktar, í 7% tilfella var hærra verð á kassa og í 5% tilfella  var lægra verð á kassa. Í desember voru verðmerkingar hins vegar í lagi á 78% vara en þá var í 16% tilfella hærra verð á kassa.

Farið var í 16 sérverslanir á Akranesi af þeim voru 11 með sýningarglugga. Einungis var sett út á verðmerkingar í glugga hjá einni verslun, Gallerí – Ozone. Verðmerkingar inni í verslunum voru í flestum tilfellum í lagi eða viðunandi, en í fjórum verslunum var verðmerkingum inni ábótavant: Apóteki Vesturlands, Lyf og heilsu, Úra- og skartgripaverslun Guðmundar B. Hannah og Hljómsýn.

Hársnyrtistofur og snyrtistofur voru einnig skoðaðar í þessari ferð, farið var í fjórar hársnyrtistofur og eina snyrtistofu og voru þær allar með verðskrá yfir þjónustu sýnilega. Verðmerkingar á söluvörum voru ekki eins góðar, hjá tveimur stofum, Hársnyrtistofunni Contact og snyrtistofunni Face, voru þær óverðmerktar. Hárskerinn var með verðmerkingar á söluvörum í góðu lagi en á Rakarastofu Gísla og í Hárhúsi Kötlu voru þær viðunandi.

Harðarbakarí var heimsótt og voru verðmerkingar þar til fyrirmyndar í einu og öllu, eins og í fyrri könnun.
Kannað var ástand verðmerkinga á fimm bensínafgreiðslustöðvum, þar af voru þrjár með fulla þjónustu en tvær ómannaðar sjálfsafgreiðslustöðvar. Stöðvarnar komu nokkuð vel út, teknar voru átta vörutegundir af handahófi og borið saman hillu- og kassaverð, af 24 vörum sem voru skoðaðar voru 20 vörur rétt verðmerktar. Verðmerkingar í kæli voru í lagi á öllum stöðvunum sem og verðmerkingar á eldsneyti utandyra.

Neytendastofa mun halda áfram verðmerkinga- og verðkannanaeftirliti sínu og gera athugun hjá fleiri verslunum. Neytendur geta sent Neytendastofu ábendingar vegna rangra eða ófullnægjandi verðmerkinga undir nafni með skráningu notenda eða sem nafnlausa ábendingu sjá nánri upplýsingar og leiðbeiningar á heimasíðu Neytendastofu.


 

TIL BAKA