Fara yfir á efnisvæði

Neytendastofa bannar Símanum hf. notkun ákveðinna fullyrðinga

08.06.2009

Neytendastofa hefur fjallað um auglýsingar Símans hf., sem bera yfirskriftina „Aðgerðaáætlun Símans fyrir fólkið og fyrirtækin“, og komist að þeirri niðurstöðu að hluti auglýsinganna brjóti gegn lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu.

Í auglýsingunum kom m.a. fram fullyrðingin „Lægsta mínútuverðið“. Neytendastofa telur fullyrðinguna brjóta gegn lögunum þar sem ekki komi fram að upphafsgjald símtala í þjónustuleiðinni sé mun hærra en í öðrum þjónustuleiðum.

Í auglýsingunum komu einnig fram fullyrðingarnar „Núll krónur í alla heimasíma“ og „Núll krónur mínútan í alla heimasíma“. Neytendastofa telur þær einnig brot þar sem ekki komi fram að við hvert símtal bætist upphafsgjald og greiða þurfi mánaðargjald fyrir þjónustuna.

Í ákvörðuninni er fjallað um það að eftir breytingu á lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu megi ekki auglýsa mínútuverð án þess að fram komi aðrir þættir sem hafi áhrif á verð símtalsins. Verð fyrir símtöl er breytilegt t.d. eftir lengd þeirra og því er ekki hægt að gefa upp endanlegt verð fyrir hvert og eitt símtal. Í slíkum tilvikum verður að tilgreina alla þætti sem hafa áhrif á verðið. Þegar auglýst er mínútuverð verður því einnig að greina frá upphagsgjaldi símtala og mánaðarverði þjónustunnar.

Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér.

TIL BAKA