Fara yfir á efnisvæði

Sala á viðbótarlífeyrissparnaði

09.04.2010

Neytendastofu barst kvörtun frá Sparnaði ehf. þar sem kvartað var yfir viðskiptaháttum Landsbankans við sölu á viðbótarlífeyrissparnaði. Sparnaður taldi Landsbankann hafa brotið gegn góðum viðskiptaháttum með því að senda viðskiptamanni Sparnaðar tölvupóst þar sem veittar voru rangar, ófullnægjandi og villandi upplýsingar í þeim tilgangi að hafa áhrif á ákvörðun hans um að eiga viðskipti.
Í tölvupóstinum var fullyrt að útreikningar sem fylgdu póstinum væru fengnir frá Bayern en sent var með honum skjal með útreikningum Landsbankans. Slíkt telur Neytendastofa brjóta í bága við góða viðskiptahætti. Þrátt fyrir röksemdir Landsbankans um að fyrir mistök hafi rangt skjal verið sent með póstinum taldi Neytendastofa að viðtakandi hans hafi ekki með nokkru móti geta áttað sig á því. Þá voru mistökin ekki leiðrétt af Landsbankanum þegar upp komst um þau.
Neytendastofa taldi samanburðinn sem kom fram í póstinum ekki villandi eða ósanngjarnan auk þess sem stofnunin taldi Landsbankann sanna aðrar fullyrðingar í póstinum með fullnægjandi hætti, sjá nánar ákvörðun nr. 16/2010.

Sparnaður ehf. kvartaði einnig til Neytendastofu yfir viðskiptaháttum KB Ráðgjafar við sölu á viðbótarlífeyrissparnaði. Sparnaður taldi það brjóta gegn góðum viðskiptaháttum að KB Ráðgjöf hafi sett sig í samband við viðskiptamann Sparnaðar án þess að hann óskaði þess. Auk þess hafi starfsmaður KB Ráðgjafar haldið fram röngum staðhæfingum við viðskiptavini Sparnaðar í símtölum.
Í ákvörðuninni er um það fjallað að Neytendastofa telji ekki sýnt fram á að KB Ráðgjöf hafi brotið gegn góðum viðskiptaháttum. Í lögum nr. 57/2005 sé markaðssetningu gagnvart börnum settar sérstakar skorður en að öðru leyti sé ekki lagt bann við markaðssetningu gagnvart tilteknum hópum eða einstaklingum. Þá var upptaka af símtali sem lagt var fram með gögnum málsins komin frá starfsmanni Kaupþings banka, ekki KB Ráðgjafar. Sjá nánar ákvörðun  nr. 17/2010.


 

TIL BAKA