Fara yfir á efnisvæði

Neytendastofa bannar auglýsingu Office1

14.08.2009

Neytendastofa hefur bannað birtingu auglýsinga Office1 þar sem fullyrt er að skólavörur hjá Office1 séu um 30% ódýrari en hjá Pennanum/Eymundsson.

Auglýsingin er byggð á verðkönnun sem framkvæmd var með þeim hætti að starfsmenn Office1 fóru í verslanir Pennans og Office1 með innkaupalista úr grunnskólum í Reykjavík fyrir nemendur í 1., 3., 5., 7. og 9. bekk.

Í lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu eru sett ströng skilyrði fyrir samanburðarauglýsingum. Ef slíkar auglýsingar eru byggðar á verðkönnun verður að vanda vel til verka við gerð könnunarinnar. Hún verður t.a.m. að vera hlutlaus og bera saman vörur sem eru samanburðarhæfar. Auglýsendur verða ávallt að geta sannað allar fullyrðingar sem fram koma í auglýsingum og því verður auglýsandi að geta sýnt fram á að samanburðurinn uppfylli skilyrði laganna og sé m.a. hlutlaus.

Í máli þessu komst Neytendastofa að þeirri niðurstöðu að verðkönnunin gæti ekki talist hlutlaus enda þótt tilgangur samanburðarins hafi bersýnilega verið sá að sýna fram á sannanlegan verðmun. Office1 gátu ekki sýnt fram á að þær vörur sem bornar voru saman væru ávallt samanburðarhæfar, bæði að gæðum og verði, og að gætt hafi verið að hagsmunum beggja aðila. Þá gat Office1 ekki sýnt fram á að útreikningar á hlutfallslegum verðmuni væri réttur.

Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér

TIL BAKA