Fara yfir á efnisvæði

Undantekning ef lausasölulyf eru verðmerkt í apótekum

22.03.2010

Dagana 26. febrúar – 10. mars síðastliðinn fóru fulltrúar Neytendastofu í 31 apótek á höfuðborgarsvæðinu til að athuga hvort verðmerkingar væru í samræmi við lög og reglur, einnig voru teknar vörur  af handahófi og gerð athugun á samræmingu milli hillu- og kassaverðs.   

Athugasemd var gerð í Laugarnesapóteki vegna verðmerkinga í verslunarrými en í öðrum apótekum voru þær í góðu lagi. Lausasölulyf voru einungis verðmerkt í níu apótekum: Apótekaranum Melhaga, Lyf og heilsu JL húsinu, Lyfjaveri Suðurlandsbraut, útibúum Apóteksins Skeifunni og Hólagarði og hjá útibúum Lyfju Laugavegi, Lágmúla, Garðatorgi og Setbergi.  Önnur apótek voru ekki með lausasölulyf verðmerkt.

Varðandi athugun á samræmingu milli hillu- og kassaverðs voru gerðar athugasemdir í fimm apótekum, bæði var um að ræða hærra eða lægra verð á kassa og óverðmerkta vöru. Í Laugarnesapóteki voru gerðar athugasemdir í rúmlega helmingi tilfella en hjá Lyfju Lágmúla, Lyfju Smáralind, Árbæjarapóteki og Apótekaranum Smiðjuvegi voru einnig gerðar athugasemdir.

Þau apótek sem fengu athugasemdir fá sent bréf frá Neytendastofu með tilmælum um að koma verðmerkingum í rétt horf. Fulltrúar Neytendastofu fylgja þessu svo eftir með annarri heimsókn á næstu misserum.                                                    

Neytendastofa mun halda áfram að fylgja eftir sjálfsögðum rétti landsmanna og veita fyrirtækjum landsins nauðsynlegu aðhaldi sem skilar sér í formi góðrar og réttrar verðmerkingu vara.

 

TIL BAKA