Fara yfir á efnisvæði

Skorkort neytendamála sýnir verri stöðu neytenda

29.03.2010

Skorkort neytendamála sýnir verri stöðu neytenda og varpar ljósi á atriði sem koma í veg fyrir að neytendur geti gert góð kaup.

Skorkort neytendamála var gefið út í dag hjá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Skorkortið sýnir að margvíslegar viðskiptahindranir koma enn í veg fyrir að neytendur njóti til fulls hagræðis til að eiga viðskipti yfir landamæri á hinum sameiginlega innri markaði á Evrópska efnahagssvæðinu. Bilið milli rafrænna viðskipta innanlands og yfir landamæri er að aukast. Neytendavernd og almennar aðstæður fyrir neytendur í einstökum ríkjum eru ekki fullnægjandi ef miðað er við traust neytenda til neytendasamtaka eða stjórnvalda sem fara með neytendavernd, svo og ef horft er til hversu vel þeir geta treyst því að fá skjóta meðferð við lausn ágreiningsmála. Í einstökum ríkjum hafa aðstæður og neytendavernd þó farið batnandi og staðan nú er betri en samkvæmt eldri skorkortum þrátt fyrir erfitt efnahagsástand. Mikill munur er á kaupmætti neytenda á milli ríkja. Í sex ríkjum er kaupmáttur minni en meðaltalsgildið er innan ESB.  Neytendur í velstæðum ESB ríkjum geta leyft sér meira þrátt fyrir að verðlag í þessum löndum sé almennt hærra. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins ætlar að vinna gegn viðskiptahindrunum og hefur gert lista yfir aðgerðir í því skyni, þar á meðal er að einfalda gildandi reglur fyrir smásöluverslanir.

Framkvæmdastjóri neytendamála John Dalli segir: „Fyrir neytendur þýðir loforðið um einn sameiginlegan Innri markað að þeir eigi að fá meira vöruúrval, fjölbreyttara og lægra vöruverð. Því miður hefur ekki í öllum tilvikum tekist að efna þetta loforð sem skyldi þar sem að neytendur og seljendur eru lokaðir með sín viðskipti innan eigin landamæra með allskyns hindrunum sem ég, ásamt samstarfsbræðrum í framkvæmdastjórninni er ákveðinn að útrýma sem fyrst”.Hann bætir við: „Ég vil sérstaklega hrósa þeim aðildarríkjum sem þrátt fyrir versnandi efnahag og stöðu ríkisfjármála hafa ákveðið að fjárfesta í aukinni neytendavernd og tryggja þeim skjóta úrlausn mála og aðstoð”.

Skorkortið
Skorkort neytendamála veitir ýmsar upplýsingar og hringir viðvörunarbjöllum um starfsemi Innri markaðarins og hvernig hann er að virka fyrir neytendur, einkum varðandi hversu mikið og fjölbreytt val þeir hafa, hversu mikil verðsamkeppnin er og hversu mikil ánægja mælist hjá neytendum. Frá og með 2010 mun Evrópusambandið birta vorútgáfu af skorkorti neytendamála þar sem skoðuð verða sérstaklega ýmis atriði er varða hversu vel gengur að afnema landamæri í smásöluviðskiptum og hvernig aðstæðum neytenda er almennt háttað í einstökum ríkjum. 
Í haustútgáfu skorkortsins sem verður gefið út í október verða alls um 50 markaðir skoðaðir í þeim tilgangi að varpa betur ljósi á hvaða markaðir starfa vel fyrir neytendur og hvaða markaðir það eru sem starfa illa og helstu vandamál er þar að finna fyrir neytendur.

Helstu niðurstöður:

Hindranir í viðskiptum yfir landamæri
Mælikvarði á hversu vel gengur að afnema landamæri í smásöluviðskiptum milli ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu er fjöldi og heildarverðmæti viðskipta sem gerð eru yfir landamæri aðildarríkjanna. Vöxtur í viðskiptum yfir landamæri er mjög lítill: árið 2009 áttu aðeins 29% neytenda viðskipti í öðru ESB/EES-ríki (25% árið 2008) og aðeins 25% smásala stunduðu sölu til annars ESB (EES) ríkis (20% árið 2008). Bilið milli sölu í netviðskiptum innanlands og yfir landamæri eykst sífellt: árið 2009 keyptu 34% neytenda innan ESB/EES vörur eða þjónustu á Netinu frá seljendum innan landamæra ríkisins (28% árið 2008) en aðeins 8% áttu viðskipti yfir landamærin í EES-ríkjunum (6% árið 2008). Fyrri kannanir hjá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sýna að unnt er að ná raunverulegum sparnaði þegar að keypt er yfir landamæri (sjá t.d. fréttatilkynningu  IP/09/1564 og MEMO/09/475)
Áfram eru þó verulegar hindranir í veginum því að mjög margir smásalar neita að selja vörur til neytenda yfir landamærin. Fyrri skýrslur sýna að slík viðskipti mistakast í 60% tilvika. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins mun markvisst vinna að því að ryðja öllum hindrunum úr vegi og hefur gert lista um aðgerðir sem hún telur að þurfi að grípa til en hann var birtur í október 2009 (sjá MEMO/09/475). Meðal aðgerða sem gripið verður til er að samræma betur reglur, auðvelda neytendum að fá lausn ágreiningsmála þegar viðskipti eru gerð yfir landamæri og að reglur verði einfaldaðar fyrir smásala.

Versnandi staða neytenda í einstökum ríkjum
Umhverfi neytenda ræðst af fjölmörgum þáttum til að mynda hversu góð löggjöf og reglur sem settar eru um fyrirtæki og samskipti við neytendur, hversu vel gengur að leysa úr ágreiningsmálum fyrir neytendur í viðskiptum og úrlausn kvartana, hversu mikið traust neytendur bera til stjórnvalda sem framfylgja reglum á sviði neytendaverndar svo og til frjálsra samtaka sem starfa í þágu neytenda í hverju landi fyrir sig. 
Efnahagskreppan hefur valdið versnandi stöðu fyrir neytendur en þó má greina að þrátt fyrir þetta hefur staða neytenda batnað í átta aðildarríkjum ESB (Portúgal, Lúxembúrg, Írlandi, Ítalíu, Austurríki, Frakklandi, Slóvakíu og Stóra Bretlandi) samkvæmt mælikvörðum skorkortsins 2008.

Mikill munur er á kaupmætti neytenda
Skorkortið sýnir mikinn mun á kaupmætti neytenda milli einstakra aðildarríkja Evrópusambandsins, þar sem tekið er bæði tillit til meðallauna og meðalverðlags.  Sláandi er að kaupmáttur fyrir neytendur er mun meiri og lífsbaráttan viðráðanlegri í velstæðum ESB ríkjum þrátt fyrir að verðlag sé almennt mjög hátt, þannig er kaupmáttur langbestur í Lúxembúrg, þar næst í Stóra Bretlandi, Kýpur, Hollandi og Austurríki.

Nánari upplýsingar er að finna: MEMO/10/109

Skorkort neytendamála í heild sinni má nálgast á þessari vefslóð, þ.á.m. um Ísland:
http://ec.europa.eu/consumers/strategy/facts_en.htm#3CMS

Reykjavík 29. mars 2010.

TIL BAKA