Fara yfir á efnisvæði

Ummæli fyrirsvarsmanns IPhone.is í lagi

25.10.2013

Friðjón Björgvin Gunnarsson, fyrirsvarsmaður netverslunarinnar Buy.is lagði fram kvörtun vegna umfjöllunar Sigurðar Þórs Helgasonar, fyrirsvarsmanns iPhone.is, um Friðjón á spjallþræði á netinu. Með spjallþræðinum vakti Sigurður athygli á ýmsum atriðum sem tengdust rekstri Friðjóns. Friðjón taldi að með ummælunum vera brotið gegn ákvörðun Neytendastofu nr. 47/2012.

Neytendastofa taldi ummælin vera sett fram í tengslum við samkeppni fyrirtækjanna. Fyrirtækjum er hins vegar ekki bannað að tjá sig um keppinauta sína eða viðskiptahætti þeirra en þeim eru þó settar ákveðnar skorður við því að það sé gert með ósanngjörnum hætti eða þannig að vegið sé að keppinautnum.

Neytendastofa taldi ummæli fyrirsvarsmanns iPhone.is ekki vera jafn afdráttarlaus og þau ummæli sem fjallað var um í eldri ákvörðun Neytendastofu. Innihéldu eldri ummælin ásakanir og fullyrðingar um lögbrot Friðjóns. Taldi stofnunin hin nýju ummæli annars eðlis og studd fullnægjandi gögnum sem séu almenn og öllum aðgengileg.

Taldi Neytendastofa því ekki ástæðu til að aðhafast frekar vegna ummælanna og var því ekki um að ræða brot gegn eldri ákvörðun stofnunarinnar.

Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér.

TIL BAKA