Fara yfir á efnisvæði

Endurskinsmerki - Það sem augað ekki sér

10.03.2011

Neytendastofa kannaði rúmlega 30 endurskinsmerki af ýmsum tegundum sem valin voru af handahófi.  Merkingar endurskinsmerkja voru teknar til skoðunar auk þess sem Vegagerðin kannaði endurskin merkjanna fyrir Neytendastofu.  Könnunin sýnir að verulega þarf að bæta úr leiðbeiningum og merkingum á endurskinsmerkjum.

Neytendur geta ekki séð  hversu góð endurskinsmerki eru með því einu að horfa á þau. Endurskinsmerki geta neytendur aðeins metið út frá þeim upplýsingum sem gefnar eru á merkinu, umbúðum eða upplýsingablaði sem fylgir þeim.  Brýnt er því að allar tilskildar merkingar og leiðbeiningar um notkun komi greinilega fram.

Það gilda sömu reglur um merkingar og leiðbeiningar fyrir öll endurskinsmerki hvernig sem þau líta út, svo sem endurskinsborða,  hangandi endurskinsmerki, smellibönd, skokkbönd, hárskraut, límmerki, saumborða og límborða.

Rík upplýsingaskylda framleiðenda og dreifingaraðila á endurskinsmerkjum
Vegna þess hve erfitt er fyrir neytendur að kanna gæði endurskinsmerkja, hvílir mikil skylda á framleiðendum, innflytjendum, dreifingaraðilum og söluaðilum merkjanna að sjá til þess að merkin séu örugg. Endurskinsmerki sem uppfylla ekki kröfur um endurskin veita  falskt öryggi og getur þar af leiðandi skapast  lífshætta þar sem neytandinn telur sig vera með endurskinsmerki sem ökumenn ættu að sjá. Viðurkennd endurskinsmerki sýna einstakling sem mætir bíl með lágum ljósum í 125 metra fjarlægð en noti hann merki sem ekki er viðurkennt þá sést hann ekki fyrr en í 30 metra fjarlægð.

Neytendastofa hvetur framleiðendur, innflytjendur, seljendur og aðila sem dreifa endurskinsmerkjum að fullvissa sig um að merki sem þeir bera ábyrgð á uppfylli kröfur um gæði endurskinsmerkja. Endurskinsmerki sem standast kröfur verða að vera með CE-merki, nafni framleiðanda og tegund eða heiti vörunnar. Auk þess verða merkin að vera með leiðbeiningum á íslensku, merkt með staðlinum EN 13356, upplýsingum um tilkynntan aðila sem staðfest hefur samræmi merkisins við kröfur,  nafni og heimilisfangi framleiðanda auk annarra nauðsynlegra upplýsinga, s.s.  um notkun þ.m.t hvort merkin þoli þvott,  hvernig á að festa endurskinsmerki þannig að það spegli ljós úr öllum áttum, o.fl.

Þeir sem setja endurskinsmerki á markað hér á landi verða að tryggja öryggi  endurskinsmerkja og gera kröfur til þess að samræmismat eða prófunarskýrsla frá framleiðanda liggi fyrir eða ef nauðsyn krefur láta prófa hvort endurskinsmerkin séu í lagi hjá viðurkenndum aðila. Fyrirtæki verða að geta afhent Neytendastofu gögn þar sem fram kemur að endurskinsmerkin uppfylli kröfur. Þessi gögn eru EB gerðarprófun (e. EC type examination certificate), prófunarskýrsla/ niðurstöður prófunar og samræmisyfirlýsing um að varan sé í samræmi við grunnkröfur um öryggi.

Neytendastofa bendir á að ýmsar vörur á markaði líkjast endurskinsmerkjum sem í raun eru það ekki. Rík ábyrgð hvílir á seljendum og dreifingaraðilum upplýsa og merkja greinilega að  slík vara sé ekki persónuhlíf til einkanota og að hún sé ekki til varnar á nokkurn hátt.

Neytendastofa  mun fylgjast nánar með markaðnum og grípa til aðgerða ef á markaðnum reynast vera endurskinsmerki sem uppfylla ekki kröfur.

TIL BAKA