Fara yfir á efnisvæði

Verðmerkingar í Smáralind almennt til fyrirmyndar

23.08.2013

Fulltrúar Neytendastofu gerðu könnun á verðmerkingum hjá sérverslunum í Smáralind.  Farið var í 69 verslanir með margskonar rekstur.  Skoðað var hvort verðmerkingar í sýningargluggum væru í lagi þar sem við átti, einnig var athugað hvort verðmerkingar voru í lagi inni í verslununum.

Þegar skoðað var inni í verslanir var ástand verðmerkinga almennt í góðu lagi en 66 af 69 verslunum voru í lagi.  Hjá verslunum Tal, 66 norður og Zo-on vantaði verðmerkingar bæði inni í verslun og sýningarglugga en hjá verslunum Dorthy Perkins, Cintamani, Smash og Joe boxer  voru einungis sýningargluggar óverðmerktir. Samanlagt fá því 7 verslanir bréf til áminningar um að laga verðmerkingar í verslunum sínum. 

Þessari eftirlitsferð verður fylgt eftir með bréfi eins og áður sagði og síðar annarri eftirlitsferð þar sem skoðað verður hvort tilefni er til að beita sektum.

Neytendastofu berast reglulega ábendingar frá neytendum um verslanir eða þjónustufyrirtæki þar sem verðmerkingar eru ekki í lagi. Þessar ábendingar skipta miklu máli þar sem verðmerkingaeftirlitið er að miklu leyti skipulagt út frá ábendingum og kvörtunum yfir verðmerkingum. Stofnunin hvetur neytendur því til að halda áfram að senda henni ábendingar t.d. í gegnum rafrænt ábendingakerfi stofnunarinnar á www.neytendastofa.is

TIL BAKA