Fara yfir á efnisvæði

Verðskrár sýnilegar á ljósmyndastofum

10.03.2010

Þar sem nú styttist í fermingar og mörg fermingarbörn nýta sér þjónustu ljósmyndara á þeim tímamótum könnuðu fulltrúar Neytendastofu hvort verðskrár væru sýnilegar hjá þeim  ljósmyndastofum sem eru á höfuðborgarsvæðinu.

Farið var í heimsókn á níu ljósmyndastofur víðs vegar um höfuðborgarsvæðið á dögunum 15. – 17. febrúar síðastliðinn. Kom þessi könnun nokkuð vel út, sjö af níu ljósmyndastofum voru með verðskrá sýnilega. Einungis tvær stofur, Svipmyndir í Reykjavík og Mynd í Hafnarfirði, voru ekki með verðskrá uppi við í þessari heimsókn, en þegar farið var í aðra heimsókn til þeirra tveimur vikum seinna var búið að bæta úr því. Það er því ekki hægt að segja annað en að ljósmyndarar séu að standa sig vel og vonum við að aðrar starfsgreinar taki þá sér til fyrirmyndar.

Við hvetjum neytendur til að koma ábendingum á framfæri í gegnum rafræna Neytendastofu á vefslóðinni www.neytendastofa.is

TIL BAKA