Fara yfir á efnisvæði

Alþjóðlegi mælifræðidagurinn

20.05.2011

Fréttamynd

Ár hvert halda mælifræðistofnanir upp á 20. maí því að þann dag árið 1875 var metrasamþykktin undirrituð af 17 ríkjum í París í þeim tilgangi að tryggja heildstætt alþjóðlegt mælieiningakerfi. Í dag eru yfir áttatíu þjóðir aðilar að Alþjóðamælifræðistofnuninni BIPM. Í tilefni dagsins senda BIPM og Alþjóðalögmælistofnunin OIML frá sér eftirfarandi tilkynningu þar sem umfjöllunarefnið er „Mælingar í efnafræði“ og á það vel við á Íslandi í dag í ljósi mikillar umræðu um díoxínmengun hérlendis og einnig vegna mikilvægis efnafræðimælinga í matvælavinnslu landsins.

Tilkynning frá BIPM og OIML
Á alþjóðlega mælifræðideginum minnast fleiri en áttatíu ríki áhrifa mælinga á daglegt líf. Ekkert þeirra getur litið fram hjá grunnatriðum mælifræðinnar þótt hún sé lítt áberandi í nútíma samfélagi. Fyrri umfjöllunarefni þessa dags hafa til dæmis verið mælingar í íþróttum, á umhverfinu, í læknisfræði og í verslun og viðskiptum.

UNESCO og IUPAC hafa ákveðið að 2011 skuli vera alþjóðlegt ár efnafræðinnar, þar sem framfara í efnafræði og framlags hennar til velsældar mannkyns er minnst. Árið 2011 er þess líka minnst að 100 ár eru liðin síðan Marie Curie hlaut Nóbelsverðlaun í efnafræði fyrir að finna frumefnin radíum og pólóníum og er það kærkomið tækifæri til að minnast framlags kvenna til vísinda.

Efnafræði er skapandi vísindagrein sem er nauðsynleg til að viðhalda lifnaðarhátta nútímamannsins og til framþróunar. Allt efni er samsett úr frumefnum og efnasamböndum. Skilningur mannsins á efnasamsetningu heimsins byggist á þekkingu á efnafræði. Umbreyting efnasambanda er lykilatriði í framleiðslu matvæla, lyfja, orku og málma, þ.e. nær allra framleiðsluafurða sem fyrirfinnast.

Slagorðið Efnafræðimælingar fyrir líf okkar og framtíð er byggt á umfjöllunarefni alþjóðlega mælifræðidagsins 2011. Efnafræði og efnafræðilegar afurðir skapa spennandi áskoranir fyrir mælifræðisamfélagið: þúsundir efnasambanda þarf að mæla og styrkur margra efna, sem greina þarf nákvæmlega, getur farið niður í milljörðustu parta eða jafnvel billjónustu. Nauðsynlegt er fyrir efnahagslífið, umhverfið og velferð okkar allra að þessar mælingar séu nákvæmar. Við megum því ekki vanmeta mikilvægi efnafræðilegra mælinga á líf okkar og framtíð“.

Landsmælifræðistofnanir verða að reiða sig á viðurkennda staðla, einingar og aðferðir til að geta framkvæmt nákvæmar mælingar sem uppfylla kröfur vísindasamfélagsins. Landsmælifræðistofnanir og rannsóknarstofur tengjast svo alþjóðlegu neti sem samstillt er af International Bureau of Weights and Measures (BIPM, alþjóðamælifræðistofnuninni). Net þetta veitir samfélaginu aðgang að nákvæmum mælingum til að mæta þörfum nútímans í heilbrigðisþjónustu, umhverfismálum sem og nýrri tækni og aðferðum ýmis konar. Í iðnaði og viðskiptum hjálpar netið til við gæðamál og samverkunarhæfni, minnkar úrgang, eykur framleiðni og auðveldar viðskipti sem grundvölluð eru á viðurkenndum mælingum og prófunum. Það hjálpar einnig vísindamönnum að nota sameiginlegt tungumál og rennir frekari stoðum undir samvinnu milli landa og tryggir að aðferðir þeirra sé hægt að framkvæma og endurtaka af fyrirtækjum um allan heim.

Lands- og svæðismælifræðistofnanir verða að grundvallast á viðurkenndum tæknilegum kröfum til að forðast eða útrýma tæknilegum hindrunum sem standa í vegi fyrir viðskiptum, tryggja eðlileg viðskipti, umhverfisvernd og viðunandi heilbrigðisþjónustu. Alþjóðalögmælifræðistofnunin (OIML – The International Organization of Legal Metrology) hefur byggt upp alþjóðlegt kerfi sem gefur aðildarlöndum tæknilegar ráðleggingar, leiðbeiningar, orðasöfn og fleira. Það geta aðildarþjóðir notað við að semja mælifræðilög og reglugerðir og þannig tryggt að skilyrðum OIML sé fullnægt.
Þemað í ár bæði hjá BIPM og OIML ítrekar mikilvægi nákvæmra, áreiðanlegra og alþjóðlega viðurkenndra efnafræðilegra mælinga til að takast á við risavaxnar áskoranir nútímans. 

Sjá nánar á www.worldmetrologyday.org

TIL BAKA