Fara yfir á efnisvæði

Fundur Welmec WG6 um forpakkningar

12.06.2009

Dagana 27. og 28. maí 2009 hélt Neytendastofa fund með vinnuhópi 6 hjá samtökum um lögmælifræði í Evrópu (Welmec) en þessi tiltekni vinnuhópur fjallar um forpakkningar (e. prepackages). Á fundinn mættu 25 manns frá flestum löndum í Evrópu. Vinnuhópurinn stendur að gerð leiðbeiningaskjala og einnig er farið yfir vandamál sem kom upp og reynt að leysa þau. Tókst fundurinn mjög vel. Vinnuhópurinn hittist að minnsta kosti tvisvar sinnum á ári.

Forpakkningar eru vörur sem ætlaðar eru til sölu í föstum stærðum með nafnmagni og eru settar í hvers kyns umbúðir án þess að kaupandinn sé viðstaddur. Framleiðandinn miðar þá pökkun vöru miðað við meðaltalsþyngd og er heimilt að vera með ákveðin frávik frá nafnþyngd skv. ákveðnum reglum sem fram koma í reglugerð nr. 437/2009 um e-merktar forpakkningar. Þegar farið er eftir reglugerð um forpakkningar er heimilt að setja sérstakt e-merki á pakkningar og auðveldar það m.a. innflutning vöru þar sem að óheimilt er að hafna, banna eða takmarka markaðssetningu forpakkninga sem standast kröfur og prófanir sem mælt er fyrir í ofangreindri reglugerð og gæti því þessi heimild hentað útflutningsfyrirtækjum á Íslandi mjög vel.

Nýlega er kominn út reglugerð nr. 437/2009 um e-merktar forpakkningar sem er endurbætt frá eldri reglugerðum í samræmi við endurbætta tilskipun um forpakkningar. Ekkert fyrirtæki á Íslandi pakkar skv. þeim reglum sem gilda um forpakkningar. Til að vekja athygli á forpakkningum, bæði kostum og göllum, hefur Neytendastofa í hyggju að halda ráðstefnu í haust þar sem m.a. erlendir fyrirlesarar með mikla þekkingu á þessu sviði mæta og er tilgangurinn að kynna þessa leið fyrirtækjum og aðilum vinnumarkaðsins á Íslandi.
1) Welmec; European co-operation in legal metrology

TIL BAKA