Fara yfir á efnisvæði

Leikföng og leikvallatæki

08.06.2010

Neytendastofu hafa borist fyrirspurnir um hver sé munur á leikfangi og leikvallatæki samkvæmt reglum og reglugerðum. Samkvæmt reglum í Evrópu gilda ítarlegar reglur um framleiðslu og gerð annars vegar leikfanga sem ætluð eru börnum og hins vegar leikvallatækja. Markmið þessara reglna er að tryggja öryggi, lífi og heilsu barna stafi ekki hætta af slíkum vörum.

Leikföng
Framleiðendur og innflytjendur bera ábyrgð á því að einungis séu markaðssett og seld leikföng sem við venjulega og fyrirsjáanlega notkun vörunnar eru hættulaus börnum. Í reglugerð nr. 408/1994, um öryggi leikfanga og hættulegar eftirlíkingar er að finna ítarleg ákvæði um kröfur um framleiðslu leikfanga sem ætluð eru til nota fyrir börn yngri en 14 ára.
CE-merki sem framleiðandi eða seljandi festir á umbúðir eða leikfangið staðfestir að leikfangið uppfylli ákvæði staðals um framleiðslu og öryggi vörunnar. Einnig skal merkja sérstaklega ef leikföng eru ekki ætluð börnum yngri en 3 ára. Það er sameiginleg ábyrgð framleiðenda, innflytjenda og seljenda að tryggja að einungis séu markaðssett og seld hér á landi örugg leikföng sem uppfylla kröfur staðla, laga og reglna settra samkvæmt þeim. Ýmsar vörur teljast ekki vera leikföng en þar má til dæmis nefna ýmis íþróttatæki og leikvallatæki en ítarlegri reglur gilda einnig um þessi tæki sem ætluð eru börnum í leik.

Leikvallatæki
Leikvallatæki eru tæki sem ætluð er til nota á opnum leiksvæðum t.d. við fjöleignarhús, við leik-og grunnskóla, á gæsluvöllum á tjaldsvæðum, o.s.frv. Leikvallatækja falla undir ákvæði í reglugerðnr. 942/2002 um öryggi leikvallatækja og leiksvæða og eftirlit með þeim.

Eftirlit með leikvallatækjum í notkun
Ábyrgð á rekstri leiktækjanna, viðhaldi þeirra, innra eftirliti og að árleg aðalskoðun fari fram í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar er í höndum einstaklinga og lögaðila sem bera ábyrgð á opnu leiksvæði og hafa fengið starfsleyfi og eru undir eftirliti viðkomandi heilbrigðisnefndar. Um eftirlit með leikvallatækjum í notkun hafa heilbrigðisnefndir undir umsjón Umhverfisstofnunar, sjá einnig skoðunarhandbók fyrir leikvallartæki hér.
Ýmsar aðrar upplýsingar s.s. um starfsleyfi og fleira má finna á vef Umhverfisstofnunar.

Aðrar vörur
Auk leikfanga og leikvallatækja ber framleiðendum og innflytjendum á margs konar vörum sem m.a. eru ætlaðar börnum svo sem trampólín, hjólaskautar, sundkútar og fleira að fylgja samræmdum evrópskum reglum um framleiðslu þeirra og markaðssetningu. Lista um slíka staðla má sjá hér

Eftirlit með nýjum leikföngum og leikvallatækjum og markaðssetningu þeirra
Eftirlit með markaðssetningu og sölu nýjum leikföngum,  leikvallatækjum og öðrum almennum vörum hefur Neytendastofa, samanber lög nr. 134/1995 um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu

 


 

TIL BAKA