Fara yfir á efnisvæði

Innköllun kveikjara

14.04.2011

Fréttamynd

Neytendastofa hefur tekið ákvörðun um að innkalla skuli og taka þegar í stað úr sölu fjórar tegundir kveikjara sem líta út eins og gaskútur, slökkvitæki, gallabuxur og skrúflykill.

Ástæða innköllunarinnar er að kveikjararnir hafa allir óhefðbundið útlit sem býður þeirri hættu heim að börn sæki í þá, grunlaus um þá hættu er af þeim stafar en sala slíkra kveikjara er bönnuð.

Öll aðildarríki evrópska efnahagssvæðisins hafa bannað markaðssetningu kveikjara með óhefðbundið útlit vegna slysahættu. Fyrir bannið var talið að um 1500-1900 slys og 30-40 dauðsföll hafi orðið árlega í ríkjum evrópska efnahagssvæðisins af völdum ólöglegra kveikjara sem börn hafa þannig valdið í ógáti. Kveikjarar sem eru með óhefðbundið útlit og kveikjarar sem ekki uppfylla kröfur um barnalæsingar hafa verið bannaðir á Íslandi frá árinu 2009.

Í ákvörðun Neytendastofu kemur fram að markaðssetning, sala og önnur dreifing kveikjaranna er óheimil og er því skylt að innkalla kveikjarana og koma í veg fyrir frekari dreifingu þeirra.

Kveikjararnir sem hafa verið innkallaðir hafa verið til sölu í verslun á vegum fyrirtækisins Grísinn ehf. og hafa verið til sölu verslunin fyrirtækisins í Ármúla 17, Reykjavík.

Neytendastofa beinir þeim tilmælum til almennings að hætta notkun á þessari tegund kveikjara  þegar í stað og tryggja að þeim sé fargað á ábyrgan hátt. Neytendur geta einnig snúið sér til söluaðila telji þeir ástæðu til vegna innköllunarinnar.

Neytendastofa vill loks hvetja almenning til að koma ábendingum til stofnunarinnar verði það vart við sölu eða dreifingu kveikjara sem eru til sölu hér á landi og sem þeir telja að séu ólöglegir. Ábendingum er unnt að koma á framfæri á einfaldan hátt í gegnum Rafræna Neytendastofu www.neytendastofa.is

Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér.

TIL BAKA