Alferðir / pakkaferðir

Alferðir eru ferðir sem í daglegu tali eru kallaðar pakkaferðir og eru fyrirfram ákveðin samsetning tveggja eða fleiri þátta sem seldir eru saman á einu verði. Til dæmis getur verið um að ræða flug og gistingu innanlands eða utan eða hestaferð með gistingu.

Lögum um alferðir nr. 80/1994 er ætlað að tryggja neytendum vernd og gera kröfur til seljenda um að veita ýmsar upplýsingar við sölu á alferðum. Neytendastofa hefur eftirlit með framkvæmd laganna og reglugerð um alferðir nr. 156/1995. Neytendastofa leysir þó ekki úr einkaréttarlegum ágreiningi.

Mikilvægt er að seljendur veiti ítarlegar og skýrar upplýsinga um allt sem ferðinni viðkemur fyrirfram. Meðal upplýsinga sem seljendur alferða verða að upplýsa neytendur um er:

    • að ef verð sem sett er fram í samningi getur hækkað eða lækkað, s.s. vegna gengisbreytinga, verður það að koma fram og jafnframt þarf að tilgreina nákvæmlega hvernig breytt verð sé reiknað út. Síðustu tuttugu daga fyrir brottför má þó ekki hækka verð
    • skilmálar sem gilda um afpantanir, en seljandi hefur heimild til að krefjast þóknunar þegar neytandi afpantar ferð
    • möguleika til að tryggja neytendur gegn fjárhagslegu tjóni ef hætta þarf við ferðina

Þegar seljendur alferða auglýsa verð á ferðum sínum skal verðið:
    
    • miðast við einstakling og verður það að koma fram þótt önnur tilboð komi fram í auglýsingunni
    • miðast við einstakling í tveggja manna herbergi ef gisting er innifalin í verði
    • innifela öll gjöld og skatta sem neytandi verður að greiða

Ef alferð stenst ekki væntingar skal ferðaskrifstofan reyna að ráða bót á því strax. Ferðaskrifstofan getur þurft að endurgreiða neytanda hluta kaupverðs ef ferð er ekki í samræmi við það sem samið var um. Náist ekki sættir og ef ferðaskrifstofan er í Samtökum ferðaþjónustunnar er hægt að snúa sér til úrskurðarnefndar Samtaka ferðaþjónustunnar og Neytendasamtakanna en nefndin er vistuð hjá Neytendasamtökunum.

Dæmi um ákvörðun Neytendastofu sem byggja á alferðalögum:
    •     Ákvörðun nr. 41/2010, Viðskiptahættir Express ferða ehf. vegna aflýsingar á alferð
    •     Ákvörðun nr.19/2009, Kvörtun Skotveiðifélagsins Landnema yfir synjun Skorra Andrew Aikman á endurgreiðslu innborgunar á alferð á Skotlandi við afpöntun ferðarinnar.
    •     Ákvörðun nr. 9/2009, Kvörtun Gylfa K. Sigurðssonar yfir hækkun alferðar hjá Heimsferðum ehf.
TIL BAKA