Fara yfir á efnisvæði

Vogir

Ósjálfvirkar vogir
Í reglugerð nr. 877/2016 um ósjálfvirkar vogir er að finna kröfur sem gerðar eru til framleiðslu og markaðssetningar slíkra voga. Vísað er til staðalsins IST EN 45501, en hann er nær samhljóða tilmælum OIML nr. R 76-1.

Reglugerðin gildir fyrir vogir til eftirfarandi nota: 

a.  Ákvörðun massa fyrir verslunarviðskipti. 
b.  Ákvörðun massa fyrir útreikning á tollum, vörugjöldum, skatti, kaupauka eða ágóðahlut, févíti, þóknun, bótum eða greiðslu af slíkum toga. 
c.  Ákvörðun massa fyrir beitingu laga eða reglugerða og álit sérfræðinga í dómsmálum. 
d.  Ákvörðun massa í störfum við vigtun sjúklinga vegna eftirlits með heilbrigði, vegna sjúkdómsgreiningar og læknisfræðimeðferðar. 
e.  Ákvörðun massa vegna lyfjagerðar eftir tilvísun í lyfjabúð og ákvörðun massa vegna greiningar á rannsóknarstofum fyrir læknis- og lyfjafræði. 
f.  Ákvörðun verðs á grunni massa vegna beinnar sölu til almennings og vegna gerðar forpakkaðrar vöru.

Sjálfvirkar vogir
Sjálfvirkar vogir falla undir gildissvið MID, tilskipunar um mælitæki, sbr. síðu um mælitækjatilskipun, og þar er að finna kröfur sem gerðar eru til framleiðslu og markaðssetningar slíkra voga. Viðauki  VIII (MI-006) er sérstaklega um sjálfvirkar vogir. Í viðaukanum eru kaflar um eftirtaldar gerðir og R-númerin vísa til OIML normskjala með nánari kröfur: 
         • sjálfvirkar ósamfelldar vogir (R 51-1), 
         • sjálfvirkar sekkjunarvogir (R 61-1), 
         • sjálfvirkar ósamfelldar samlagningarvogir (R107-1), 
         • sjálfvirkar samfelldar samlagningarvogir (R 50-1) og 
         • sjálfvirkar járnbrautarvogir (R 106-1).
Aðildarríkjum var heimilt að ákveða þá notkun voganna sem reglurnar skyldu ná til og í okkar tilviki kemur notkunin fram í reglugerð nr. 253/2009 um mælifræðilegt eftirlit með sjálfvirkum vogum.

Eftirlit með notkun voga
Reglugerðir nr. 253/2009 um mælifræðilegt eftirlit með sjálfvirkum vogum og nr. 254/2009 um mælifræðilegt eftirlit með ósjálfvirkum vogum gilda fyrir eftirlit með vogum í notkun. Gildistími löggildinga skv. þessum reglugerðum er 2 ár.
Þegar vog er tekin í notkun skal samræmismati vera að fullu lokið og vogir vera rétt merktar og innsiglaðar. Ljúka má samræmismati ósjálfvirkra voga fjarri notkunarstað ef framleiðandi nýtir upplýsingar um þyngdarsvið í Íslandi, en sjálfvirkar vogir skal sannprófa á notkunarstað og skulu vogirnar þá vera uppsettar og tilbúnar til notkunar. Gera má undanþágu ef tiltekin skilyrði eru uppfyllt sbr. 5. gr. rg. nr. 253/2009.

Flestar vogir eru háðar þyngdarsviði. Smellið hér til að sjá um þyngdarsvæði á Íslandi.

Okt. 2009.

TIL BAKA