Fara yfir á efnisvæði

Snuddubönd

Á undanförnum árum hefur framboð snuddubanda hér á landi aukist töluvert. Einhver hluti þeirra er búinn til í heimahúsum, ýmist saumuð úr efni, hekluð, prjónuð eða föndruð á annan hátt, t.d. með perlum. Til þess að heimilt sé að selja og eða markaðssetja snuddubönd þurfa þau að uppfylla grunnkröfur laga nr. 134/1995, um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu, og staðla sem um vöruna gilda.

Í staðli ÍST EN 12586 er kveðið á um það hvernig eigi að hanna og framleiða snuddubönd þannig að þau séu örugg. Í honum kemur m.a. fram að þau megi ekki vera lengri en 22 cm. Þegar snuddubönd eru of löng er hætta á því að börn nái að vefja þeim utan um hálsinn og skapa þar með hættu á kyrkingu. Ýmsar aðrar kröfur um snuddubönd og festingar koma fram í staðlinum sem framleiðendur, dreifingar- og söluaðilar þurfa að kynna sér.

Á sumum snudduböndum eru leikföng, s.s. bangsar, og þegar svo er þurfa snudduböndin einnig að uppfylla kröfur leikfangastaðalsins ÍST EN 71 og vera CE-merkt. CE-merkingin er yfirlýsing ábyrgðaraðila um að viðkomandi vara uppfylli grunnkröfur Evróputilskipana sem um hana gilda og að við mat á samræmi hafi verið beitt þeim aðferðum sem tilteknar eru í viðkomandi tilskipunum. Ef smáhlutir á snudduböndum losna er hætta á því að börn setji þá upp í munn og getur það valdið köfnunarhættu hrökkvi þeir ofan í kok þeirra.

Neytendastofa varar því neytendur við því að kaupa og nota snuddubönd sem ekki er vitað hvort framleidd hafi verið samkvæmt gildandi reglum eða viðeigandi staðla sem gera einnig kröfur um merkingar s.s. varúðarmerkingar. Innköllun á vörum getur verið kostnaðarsöm fyrir framleiðendur og söluaðila.

Skaðsemisábyrgð framleiðanda, dreifingar- og söluaðila
Í gildi eru lög um skaðsemisábyrgð, nr. 25/1991, sem verndar neytendur í þeim tilvikum þegar þeir verða fyrir tjóni ef framleiðslugallar koma fram í vörum sem neytendur nota. Þeir sem geta borið bótaábyrgð eftir lögunum eru framleiðendur og sá sem dreifir vöru.

Framleiðandi vöru telst sá sem býr til fullunna vöru; einnig sá sem býr til hluta vöru eða lætur af hendi hráefni og sá er vinnur eða aflar afurða úr náttúrunni. Enn fremur hver sem lætur líta svo út að hann sé framleiðandi með því að setja nafn sitt á vöru, vörumerki eða annað auðkenni. Dreifingaraðili telst hver sá sem í atvinnuskyni dreifir vöru án þess að teljast framleiðandi. Framangreind lög tryggja neytendum á öllu EES-svæðinu rétt til skaðabóta ef þeir kaupa vöru sem haldin er framleiðslugalla.

Í Rapex, tilkynningarkerfi framkvæmdastjórn ESB, má finna tilkynningar um snuddubönd sem tekin hafa verið af markaði og/eða þau innkölluð frá neytendum þar sem þau uppfylla ekki kröfur staðla. Hægt er að skoða tilkynningar hér.
 
Staðla er hægt að fá keypta hjá Staðlaráði Íslands


Staðlalisti

 

Gildandi staðlar um leikvallatæki:
ÍST EN 1176-1 Leikvallatæki - 1. hluti: Almennar öryggiskröfur og prófunaraðferðir.
ÍST EN 1176-2 Leikvallatæki - 2. hluti: Rólur, sérkröfur um öryggi og prófunaraðferðir.
ÍST EN 1176-3 Leikvallatæki – 3. hluti: Rennibrautir, sérkröfur um öryggi og prófunaraðferðir.
ÍST EN 1176-4 Leikvallatæki – 4. hluti: Hlaupakettir, sérkröfur kröfur um öryggi og prófunaraðferðir.
ÍST EN 1176-5 Leikvallatæki – 5. hluti: Hringekjur, sérkröfur um prófunaraðferðir.
ÍST EN 1176-6 Leikvallatæki – 6. hluti: Rugguhestar, sérkröfur um prófunaraðferðir.
ÍST EN 1176-7 Leikvallatæki – 7. hluti: Leiðbeiningar um uppsetningu, eftirlit, viðhald og rekstur.

Gildandi staðlar um undirlag leikvallartækja:
ÍST EN 1177 Yfirborðsefni á leiksvæðum, öryggiskröfur og aðferðir við prófun.

Allir staðlar eru til sölu hjá Staðlaráði Íslands.

TIL BAKA