Fara yfir á efnisvæði

Farangur

Farþegar, sem ferðast með evrópsku flugfélagi á hvaða áfangastað sem er, eiga rétt á skaðabótum fyrir það tjón sem verður á farangri ef hann: 

  • tefst
  • glatast
  • skemmist
  • eyðileggst

Bætur geta verið allt að 1.150 SDR.

Farangur tefst
Ef innritaður farangur tefst verður flugfélag að greiða farþega bætur sem eiga að duga fyrir kostnaði vegna kaupa á nauðsynjum frá því að töfin verður og þar til farþegi fær farangurinn.

Mismunandi er milli flugfélaga hvernig greiðslu bótanna er háttað. Flugfélög greiða ýmist strax ákveðna upphæð sem dugar að kaupa helstu nauðsynjar, ákveðna upphæð daglega í ákveðinn dagafjölda eða greiða ekki í reiðufé heldur endurgreiða kostnað vegna kaupa á nauðsynjum þegar kassakvittunum er framvísað.

Flugfélag verður þó ekki að greiða skaðabætur ef það getur sannað að félagið, starfsmenn þess og umboðsmenn hafi viðhaft þær aðgerðir sem telst sanngjarnt að viðhafa eða að ómögulegt hafi verið að framkvæma slíkar aðgerðir.

Ef farþegi hefur ekki fengið farangurinn afhentan 21 degi eftir flugið á flugfélag að líta svo á að farangurinn sé glataður og greiða bætur í samræmi við það.

Farangur glatast
Þegar liðinn er 21 dagur frá flugi og farangur hefur ekki komið í leitirnar á flugfélag að telja að hann sé glataður.

Þegar flugfélag metur tjónið getur það óskað eftir upplýsingum um þá hluti sem hafa glatast og jafnvel greiðslukvittunum. Líklega mun sú upphæð sem félagið greiðir ekki bæta allt tjónið vegna verðrýrnunar hluta. Ef farþegi er tryggður getur hann oft fengið hærri bætur hjá tryggingafélagi sínu en hjá flugfélaginu.

Farangur skemmist
Þegar tjón vegna skemmdar á farangri er metið miða flest flugfélög upphæð bótanna við verðmæti töskunnar eða innihalds sem skemmdist. Flugfélagið getur óskað eftir greiðslukvittunum og mun líklega draga verðrýrnun hlutar frá bótunum. Ef það var einungis taskan sem skemmdist bjóða sum flugfélög einfaldlega nýja tösku í staðinn.

Glataðir eða stolnir hlutir
Þegar einstaka hluti vantar í farangur getur reynst mjög erfitt að fá bætur frá flugfélaginu þar sem farþegi getur átt erfitt með að sanna að umræddur hlutur hafi verið í farangrinum. Í skilmálum flestra flugfélaga segir að félagið beri ekki ábyrgð á hlutum sem eru verðmætir eða viðkvæmir fyrir skemmdum, s.s. peningar, skjöl, myndavélar, farsímar og skartgripir.

Hvað á farþegi að gera?
Ef farangur tefst, glatast, skemmist eða eyðileggst skal farþegi tilkynna það á þjónustuborði í flugstöð áður en hann yfirgefur flugstöðina.

Farþegi getur beint kröfu sinni um bætur að því flugfélagi sem hann flýgur með eða til þeirrar ferðaskrifstofu eða flugfélags sem hann keypti ferðina hjá.

Ef farþegi flýgur með tveimur eða fleiri flugfélögum og innritar farangur fyrir alla ferðina á fyrsta brottfararstað getur hann krafið hvert flugfélaganna sem er um bætur.

Ef flugfélagið stendur ekki við skyldur sínar getur farþegi sent kvörtun til Samgöngustofu eða ef flugið er hluti af pakkaferð til úrskurðarnefndar í ferðamálum eða Neytendastofu.

Nánari upplýsingar um réttindi flugfarþega má fá hjá Samgöngustofu.

TIL BAKA