Fara yfir á efnisvæði

Rafræn auðkenning og traustþjónusta

 Hér á landi gilda lög nr. 55/2019 um rafræna auðkenningu og traustþjónustu fyrir rafræn viðskipti. Með lögunum er innleidd reglugerð ESB um rafræna auðkenningu og traustþjónustu fyrir rafræn viðskipti á innri markaðinum (Electronic Identification, Authentication and Trust Services) hér eftir eIDAS. Neytendastofa fer með eftirlit samkvæmt lögunum með fullgildum traustþjónustuveitendum og traustþjónustuveitendum sem ekki eru fullgildir.

eIDAS reglugerðin
Markmið með eIDAS reglugerðinni er að þar er leitast við að auka traust á rafrænum viðskiptum á innri markaðinum með því að skapa sameiginlegan lagagrundvöll fyrir örugg rafræn samskipti milli neytenda, fyrirtækja og opinberra yfirvalda. Það mun auka skilvirkni í nettengdri þjónustu opinberra aðila og einkaaðila, í öllum rafrænum viðskiptum og rafrænni verslun innan EES.

Í eIDAS reglugerðinni eru ákvæði sem eiga að tryggja að örugg rafræn auðkenning og sannvottun sé möguleg til aðgangs að nettengdri þjónustu innan og yfir landamæri sem EES aðildarríkin bjóða.

Reglugerðinni er ætla að ryðja rafrænum hindrunum úr vegi og auðvelda borgurum að nota rafrænt auðkenni til sannvottunar í öðrum aðildarríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu. Gagnkvæm viðurkenning á rafrænum auðkenningarleiðum muni því auðvelda ýmsa þjónustustarfsemi yfir landamæri á innri markaðinum (EES) og gera fyrirtækjum kleift að starfa yfir landamæri án þess að standa frammi fyrir mörgum hindrunum í samskiptum við opinber yfirvöld.

Traustþjónusta
Traustþjónusta er rafræn þjónusta sem felst í myndun, sannprófun og staðfestingu rafrænna undirskrifta, rafrænna innsigla eða rafrænna tímastimpla, rekjanlegrar rafrænnar afhendingarþjónustu og vottorða sem tengjast þessum þjónustum eða varðveislu rafrænna undirskrifta, innsigla eða vottorða sem tengjast þessum þjónustum.

Réttaráhrif fullgildrar rafrænnar undirskriftar
Fullgild rafræn undirskrift skal hafa sömu réttaráhrif og eiginhandarundirskrift. Þó skal ekki hafna því að rafræn undirskrift fái réttaráhrif og sé viðurkennd sem sönnunargagn í málarekstri einungis af þeirri ástæðu að hún er á rafrænu formi eða að hún uppfylli ekki kröfur sem gerðar eru til rafrænna undirskrifta. Viðurkenna á fullgilda rafræna undirskrift sem gefin er út í einu aðildarríki sem fullgilda rafræna undirskrift í öllum öðrum aðildarríkjum.

Traustþjónustuveitendur sem eru ekki fullgildir
Neytendastofa fer einnig með eftirlit með traustþjónustuveitendum sem ekki eru fullgildir. Eftirlitið felst í því að grípa til aðgerða ef stofnuninni er tilkynnt um eða verður þess vör á grundvelli eigin rannsóknar verður þess vör að traustþjónustuveitandi uppfylli ekki viðeigandi lágmarksskilyrði.

Upplýsingar um rafrænar undirskriftir má finna á vefnum skilriki.is.

 

 

TIL BAKA