Fara yfir á efnisvæði

Hvað þarf neytandi að vita um vogir?

Neytendastofa hefur m.a. það hlutverk að hafa eftirlit með löggildingarskyldum mælitækjum. Löggilding merkir aðgerð til að tryggja og staðfesta að mælitæki fullnægi í einu og öllu kröfum laga og reglugerða og mæli þar með rétt.

Hvaða vogir er skylt að löggilda?
Samkvæmt lögum og reglugerðum er skylt að löggilda vogir sem vara er seld eftir. Tilgangurinn með löggildingu er að vernda neytendur og skapa traust í viðskiptum. Nánari fyrirmæli um löggildingarskyldu eru í reglugerð nr. 954/2006 um löggildingarskyldu mælitækja í notkun.

Dæmi um löggildingarskyldar vogir:
Vogir í verslunum, hafnarvogir, vogir á pósthúsum, vogir hjá flutningsaðilum, sumar vogir á rannsóknarstofum og við lyfjagerð, vogir fyrir forpakkaðar vörur og vogir í fiskiðnaði.

Hvernig sést að vog hafi verið löggilt?
Þegar vog er löggilt er festur á hana löggildingarmiði með nokkrum ártölum og mánaðarnúmerum. Miðinn er gataður í gegnum ártal og númeri sem táknar mánuðinn (1 = janúar og svo framvegis)  til að sýna lok löggildingartímabils en það er 1-2 ár og fer eftir notkun. Göt í gegnum 10 og 2014 þýða að tímabilið rennur út í lok október 2014.

 

 
 

 

 

 

 

Ný vog, sem nýkomin er úr framleiðslu og prófunum, telst löggilt og má vera án löggildingarmiða beri hún greinilega m.a. eftirfarandi tákn: CE-tákn ásamt tveim síðustu tölum ártalsins þegar CE-táknið var sett á og grænan ferhyrndan límmiða, 12,5 mm á kant að stærð hið minnsta, með hástafnum M prentuðum í svörtum lit.
Ný vog telst löggilt út það ár sem CE-merkingin sýnir og að auki eitt löggildingartímabil, en lengd þess fer eftir notkun vogarinnar. Sem dæmi má nefna að ef CE-merking sýnir ártali 07 og vogin er notuð í verslun þá telst hún löggilt út árið 2009. 

TIL BAKA