Fara yfir á efnisvæði

Norrænar skýrslur

Norræna ráðherranefndin í neytendamálum gefur á hverju ári út fjölda skýrslna um neytendamál. Skýrslurnar eru afrakstur norrænna vinnuhópa um hin ýmsu neytendamál. Hér að neðan eru nokkrar nýjar eða nýlegar skýrslur og til hægri á þessari síðu er tengill í allar skýrslur um neytendamál sem gefnar hafa verið út á síðustu árum.

Vildledende markedsføring i markedsføringslovgivningen og på specialområderne (TemaNord 2006:548)
Í skýrslunni er fjallað um hvernig tekið sé á villandi markaðssetningu bæði með almennri markaðslöggjöf sem og með sérlöggjöf á Norðurlöndum. Sífellt ágengari markaðssetning á vörum hefur vakið upp spurningar um hvort neytendavernd sé nægjanlega tryggð með núverandi fyrirkomulagi. Almenn markaðslöggjöf tryggir ákveðna lágmarks neytendavernd en sérlöggjöf, s.s. um matvörur og snyrtivörur, tekur meira tillit til einkenna viðkomandi markaðar.

De nye forbrugerkøbsregler i praksis (TemaNord 2006:533)
Með tilskipun ESB um ákveðna þætti í sölu neysluvara og ábyrgð þar að lútandi (1999/44/EB) voru innleiddar nýjar reglur í kauparétti um neytendakaup. Tilskipunin leiddi til breytinga á norrænum neytendakaupalögum þ.m.t. á Íslandi. Markmið skýrslunnar er að útskýra framkvæmd þessara nýju reglna. Íslenska samantekt er að finna á blaðsíðu 117 í skýrslunni.

Tillægsforsikringer i Norden (TemaNord 2006:524)
Á vegum norrænu ráðherranefndarinnar hefur verið gefin út skýrsla um viðbótartryggingar við vörukaup á Norðurlöndum. Viðbótartryggingar eru tryggingar sem neytendur kaupa í verslunum um leið og þeir kaupa vörur eins og rafmagns- og heimilistæki. Í skýrslunni er að finna kortlagningu markaðarins fyrir viðbótartryggingar en á Íslandi er það eingöngu ELKO sem býður slíkar tryggingar. Velt er upp sjónarmiðum um hvort viðbótartyggingar veiti neytendum meiri vernd en þá sem lög um neytendakaup gera varðandi galla og ábyrgð á vörum og hefðbundnar innbústryggingar. Íslenska samantekt á efni skýrslunnar er að finna á bls. 105.

Mobiliteten i den nordiske finansielle sektor (TemaNord 2006:507)
Á alþjóðadegi neytenda þann 15. mars 2006 var gefin út skýrsla á vegum norrænu ráðherranefndarinnar um hreyfanleika viðskiptavina milli fjármálastofnana á Norðurlöndum, samanburð á þjónustugjöldum, vöxtum o.fl. Niðurstöður sýna meðal annars að mikill munur er á þjónustugjöldum hinnar dæmigerðu norrænu fjölskyldu. Skýrslan varpar einnig ljósi á vaxtamun á Norðurlöndum. Þá kemur fram í niðurstöðum að einungis 4-5% viðskiptavina hafa flutt viðskipti sín í annan banka á árinu 2004. Í skýrslunni er að finna tillögur um með hvaða hætti sé unnt að bæta stöðu neytenda og auðvelda hreyfanleika á milli bankastofnana og auka möguleika á að gera verðsamanburð á þjónustugjöldum. Jafnvel þó að taka verði niðurstöðum með ákveðnum fyrirvara er ljóst að hreyfanleiki neytenda á fjármálamarkaði er minni en á öðrum samkeppnismörkuðum.

Welfare and Health Services in the Nordic Countries – Consumer Choices (TemaNord 2005:575)
Skýrslan rannsakar upplýsingaþörf neytenda í Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð vegna þjónustu á nokkrum mörkuðum. Í skýrslunni eru þrír markaðir skoðaðir, þ.e. heilsugæsla og læknar, tannlæknar og dagvistun barna á forskólaaldri. Niðurstöður byggjast< á svörun 800 einstaklinga frá hverju hinna fimm Norðurlanda. Í viðauka er að finna spurningarnar á íslensku.

The Nordic model for consumer and customer satisfaction – Policy report (TemaNord 2005:574)
Skýrslan greinir frá þróun nýs verkfæris til þess að mæla ánægju neytenda og viðskiptavina á mismunandi mörkuðum og í mismunandi löndum. Niðurstöður sýna ánægju neytenda á átta völdum mörkuðum.

Kommersielt press mot barn og unge i Norden – Foreldre og barn i en kommersiell oppvekst (TemaNord 2005:567)
Í skýrslunni er fjallað um að börn og unglingar verða í auknum mæli, og sífellt yngri, að neytendum. Kaupþrýstingur á börn og foreldra þeirra eykst stöðugt með öflugum markaðssóknum fyrirtækja. Opinberar stofnanir leggja áherslu á hversu viðkvæm börn og unglingar eru en viðskiptalífið telur þau hæf til þátttöku á markaðnum.

Virksomhedernes klagebehandling i Danmark og Sverige (TemaNord 2005:553)
Skýrslan greinir frá því hvernig norræn fyrirtæki vinna úr kvörtunum neytenda en fyrirtæki í Danmörku og Svíþjóð voru valin sem dæmi. Fjallað er um hvort og hvernig fyrirtæki beita kvartanastjórnunarkerfum til að leysa mál og hvort þau hafi fjárhagslegan ávinning af slíkum kerfum. Aftast í skýrslunni er að finna íslenskan útdrátt. 



TIL BAKA