Fara yfir á efnisvæði

Starfsmannastefna

Neytendastofa leggur áherslu á að hafa yfir að ráða hæfu, vel menntuðu og áhugasömu starfsfólki sem axlar ábyrgð, sýnir frumkvæði í starfi og tekur þannig virkan þátt í framþróun stofnunarinnar.

Neytendastofa leggur áherslu á að starf hjá stofnuninni fari saman við heilsusamlegt líf og rækt við fjölskyldu- og einkalíf.

Viðvera og vinnutími
Vinnutími skal vera sveigjanlegur eftir því sem unnt er og dagvinna skal að öllu jöfnu unnin á tímabilinu 08:00-18:00 frá mánudegi til föstudags.

Starfsþróun/símenntun
Neytendastofa telur mikilvægt að stofnunin búi á hverjum tíma yfir faglegri þekkingu og reynslu. Því leggur Neytendastofa áherslu á að veita starfsmönnum starfsþjálfun sem m.a. tekur til hvers konar námskeiða, starfsnáms og annarrar símenntunar. 

Upplýsingamiðlun og stjórnun
Neytendastofa leggur áherslu á að opna og greiða upplýsingamiðlun milli starfsmanna og stjórnenda um málefni er varða störf þeirra. Stofnunin leggur áherslu á góða og nútímalega stjórnunarhætti sem m.a. fela í sér jákvætt viðhorf til þátttöku starfsmanna í stefnumótun og vilja þeirra til að vinna að stöðugum umbótum til að ná árangri í verkefnum stofnunarinnar.

Samskipti
Neytendastofa leggur ríka áherslu á góðan starfsanda á vinnustað og að efla starfsmenn sem liðsheild. Starfsmenn skulu sýna samstarfsmönnum sínum og öðrum tilhlýðilega virðingu, umburðarlyndi og jákvætt viðmót í öllum samskiptum.

Starfsmannasamtöl
Stjórnendur bera ábyrgð á því að starfsmannasamtöl fari fram árlega.  Tilgangur samtalanna er að stuðla að starfsþróun,  árangri og velferð starfsmanna sem og gagnkvæmri upplýsingamiðlun. Samtölunum er ætlað að auðvelda starfsmönnum og stjórnendum að ná settum markmiðum og að skapa gagnkvæmt traust.

Vinnuvernd, umhverfis- og öryggismál
Neytendastofa leggur áherslu á heilsuvernd starfsmanna þar sem boðið er upp á góðan aðbúnað og öruggt starfsumhverfi. 

Heilsurækt og félagsstarf
Neytendastofa styður heilsusamlegt líferni og vellíðan starfsmanna, t.d. til að ástunda líkamsþjálfun og styður almennt við heilsueflingu starfsmanna. Félagsstarf starfsmanna Neytendastofu er mikilvægt og hefur það að markmiði að efla samkennd og samstöðu þeirra sem og fjölskylduvænna viðburða í samvinnu við starfsmannafélagið. Félagið skal stutt eftir því sem aðstæður leyfa.

TIL BAKA