Fara yfir á efnisvæði

Vernd auðkenna

Neytendastofa hefur eftirlit með lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu nr. 57/2005. Hægt er að nálgast lögin hér.

Samkvæmt 15. gr. a. laganna er óheimilt að nota í atvinnustarfsemi firmanafn, verslunarmerki eða því um líkt, sem sá hefur ekki rétt til er notar, eða reka atvinnu undir nafni sem gefur villandi upplýsingar um eignarrétt eða ábyrgð atvinnurekanda. Enn fremur er sérhverjum bannað að nota auðkenni, sem hann á tilkall til, á þann hátt að leitt geti til þess að villst verði á því og öðru einkenni sem annað fyrirtæki notar með fullum rétti.

Þetta er það ákvæði sem Neytendastofa vinnur eftir er lýtur að viðbótarvernd auðkenna og ruglingshættu.

Við mat á ruglingshættu er stuðst við ýmis sjónarmið, til að mynda:
-aldur auðkenna m.t.t. forgangsáhrifa,
-sjónlíking merkjanna,
-hvort fyrirtæki séu í sambærilegum rekstri/keppinautar,
-hvort þau beini þjónustu sinni að sama markhópi,
-hvort auðkennið innihaldi almenn orð (almenn orð veita að jafnaði ekki einkarétt),
-hvernig orð/merki eru notuð,
-hvort orð/merki lýsa starfseminni (Ef orð lýsir starfseminni nýtur það síður einkaréttar),
-þá getur góð trú og sjónarmið vörumerkjaréttar spilað hlutverk við matið, osfrv.

Heildarmat ræður niðurstöðunni hverju sinni. Á heimasíðu okkar neytendastofa.is er hægt að finna ákvarðanir stofnunarinnar.

Að leita til Neytendastofu er þó aðeins eitt af þeim úrræðum sem rétthafi hugverkaréttinda getur nýtt sér. Önnur úrræði geta til dæmis verið höfðun dómsmáls eða fljótvirkari úrræði eins og lögbann svo dæmi séu tekin. Þá er rétt að benda á að ákvarðanir Neytendastofu beinast eingöngu að því hvort brotið hafi verið gegn 15. gr. a. laganna en ekki öðrum ákvæðum laga svo sem eins og laga um vörumerki nr. 45/1997.

Rétt er að vekja athygli á að Neytendastofu er tryggt vítt svigrúm við mat á því hvort taka beri mál til rannsóknar og samkvæmt lögum ber stofnuninni að leggja áherslu á mál sem brýnust þykja fyrir heildarhagsmuni neytenda. Mál er lúta að viðbótarvernd auðkenna teljast almennt séð ekki til mála sem hafa mikla þýðingu fyrir neytendur enda snerta slík mál iðulega hagsmuni neytenda með takmörkuðum hætti. Slík mál eru því almennt séð ekki tekin til efnislegrar meðferðar hjá stofnuninni nema aðstæður séu með þeim hætti að þær varði heildarhagsmuni neytenda.

Teljir þú mál þitt þannig vaxið að það varði heildarhagsmuni neytenda, og gefi þannig tilefni til aðgerða af hálfu Neytendastofu, þá verður formlegt rökstutt erindi (dagsett og undirritað) auk viðeigandi gagna um meint brot að berast Neytendastofu. Rétt og vönduð gagnaöflun um brotið er mikilvæg enda getur slíkt hraðað málsmeðferð. Oftast eru aðilar með lögmann í þessum málum hjá okkur en það er ekki skilyrði.

 

TIL BAKA