Fara yfir á efnisvæði

Vernd auðkenna

Samkvæmt 15. gr. a. laganna er óheimilt að nota í atvinnustarfsemi firmanafn, verslunarmerki eða því um líkt, sem sá hefur ekki rétt til er notar, eða reka atvinnu undir nafni sem gefur villandi upplýsingar um eignarrétt eða ábyrgð atvinnurekanda. Enn fremur er sérhverjum bannað að nota auðkenni, sem hann á tilkall til, á þann hátt að leitt geti til þess að villst verði á því og öðru einkenni sem annað fyrirtæki notar með fullum rétti.

Neytendastofa hefur tekið fjölda ákvarðana á grundvelli ákvæðisins er varða ólögmæta notkun keppinauta á vörumerkjum, lénum, firmaheitum og öðrum auðkennum fyrirtækja. Við úrlausn mála af þessu tagi er stuðst við heildarmat á ruglingshættu auðkennanna. Heildarmatið styðst við ýmis sjónarmið, til að mynda aldur auðkennanna með tilliti til forgangsáhrifa, sjónlíkingu auðkennanna, hvort fyrirtæki séu í sambærilegum rekstri/keppinautar, hvort þau beini þjónustu sinni að sama markhópi, hvort auðkennin innihaldi almenn orð sem síður veiti einkarétt, hvernig auðkennin eru notuð og hvort þau séu eingöngu lýsandi fyrir starfsemina. Þá getur góð trú, sjónarmið vörumerkjaréttar, o.s.frv. einnig spilað hlutverk við matið. Heildarmatið ræður niðurstöðunni hverju sinni.

Til þess að Neytendastofa geti tekið slík mál til meðferðar verður henni að berast rökstutt erindi með skýrum kröfum auk viðeigandi gagna um tilvist auðkenna/vörumerkjaréttar og meint brot, þ.e. gögn um gagnaðila, auðkenni hans, notkun auðkennanna, fyrri samskipti aðila ef einhver eru, o.s.frv.

Til nánari útskýringar má benda á nokkrar leiðandi úrlausnir áfrýjunarnefndar neytendamála í slíkum málum:

    •     Úrskurður í máli nr. 5/2012, kæra Rafco ehf. á ákvörðun Neytendastofu nr. 12/2012.
    •     Úrskurður í máli nr. 19/2011, kæra Upplýsingastýringar ehf. á ákvörðun Neytendastofu nr. 49/2011
    •     Úrskurður í máli nr. 5/2007, kæra Norðlenska matborðsins ehf. á ákvörðun Neytendastofu nr. 9/2007.

 

TIL BAKA