Fara yfir á efnisvæði

Auglýsingar

Í lögum nr. 57/2005 um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu er að finna ýmis ákvæði um auglýsingar. Ákvæðin taka til auglýsinga og kynninga hvernig sem þær fara fram, t.a.m. geta ákvæðin átt við um auglýsingar í hefðbundnum skilningi sem og upplýsingar á vefsíðu eða jafnvel símtöl og tölvupóstar. Eina skilyrðið er að um markaðssetningu sé að ræða í tengslum við vöru eða þjónustu. Meginreglan um auglýsingar er sú að óheimilt er að veita rangar, villandi eða ófullnægjandi upplýsingar. Í lögunum eru tilgreindar þær upplýsingar sem fram eiga að koma í auglýsingum, þó að teknu tilliti til þess auglýsingamiðils sem nýttur er. Upplýsingar sem veittar eru í auglýsingum geta talist villandi jafnvel þó þær séu efnislega réttar ef þær eru settar fram með villandi hætti. Þá mega auglýsingar ekki vera ósanngjarnar gagnvart neytendum eða keppinautum. 

Samanburðarauglýsingar eru auglýsingar þar sem beint eða óbeint er vísað til keppinauta eða vöru eða þjónustu sem keppinautur selur. Samanburðarauglýsingar eru leyfðar að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Svo dæmi séu tekin mega þær ekki vera villandi og samanburðurinn verður að taka til vöru eða þjónustu sem fullnægir sömu þörfum eða er ætluð til sömu nota þ.e. sé samanburðarhæf.

Sú krafa er gerð að auglýsendur geti fært sönnur á allt það sem fram kemur í auglýsingum, s.s. um gæði og áhrif þeirra vara sem auglýstar eru eða þegar því er haldið fram að eitthvað sé best eða mest. Auglýsingar sem innihalda ósannar fullyrðingar gefa neytendum rangar og villandi upplýsingar og eru ósanngjarnar gagnvart keppinautum. Á auglýsanda hvílir sönnunarbyrðin og hann verður að tryggja að allar forsendur fullyrðinga sem birtast eiga í auglýsingum liggi fyrir áður en auglýsingin er birt. Geti auglýsandi ekki sýnt fram á að fullyrðingarnar séu réttar brjóta þær í bága við ákvæði laganna og getur Neytendastofa lagt fyrir fyrirtæki að breyta auglýsingum, bannað birtingu þeirra og sektað fyrirtækið.

Í lögunum er einnig kveðið á um að auglýsingar eigi að vera á íslensku og þannig gerðar að ekki leiki vafi á að um auglýsingar sé að ræða.

Dæmi um ákvarðanir Neytendastofu þar sem auglýsanda hefur verið gert að færa sönnur á fullyrðingar auglýsinga:

    •     Ákvörðun nr. 45/2015 Auglýsing Skeljungs á Orkunni og Shell
    •     Ákvörðun nr. 35/2015 Auglýsingar Gagnaveitu Reykjavíkur
    •     Ákvörðun nr. 47/2014 Auglýsingar A4 um stærsta skiptibókamarkaðinn
    •     Ákvörðun nr. 31/2014 Auglýsingar mbl.is um vinsældir vefsins
TIL BAKA